Krefur ríkið um 200 milljónir í bætur

Albert var sýknaður í málinu við endurupptöku árið 2018.
Albert var sýknaður í málinu við endurupptöku árið 2018. mbl.is/Hari

Albert Klahn Skaftason, einn sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, krefur ríkið um 200 milljónir króna vegna frelsissviptingar og miska sem hann varð fyrir vegna málsins. Albert hafði áður fengið greiddar 15 milljónir króna í bætur úr ríkissjóði árið 2020 og dregst sú upphæð frá kröfunni.

Albert var sýknaður við endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins fyrir Hæstarétti árið 2018, en hann var dæmdur í 12 mánaða fangelsi á sínum tíma fyrir aðild sína að málinu. Þá sat hann í gæsluvarðahaldi í 88 daga.

Þarf að taka fleira inn í jöfnuna

Ríkið hefur áður verið dæmt til að greiða þremur öðrum sakborningum málinu frekari bætur og segir Hrafnkell Oddi Guðjónsson, lögmaður Alberts, að máli hans svipi til hinna.

„Það er ekki búið að semja við settan ríkislögmann um frekari bætur en voru greiddar árið 2020 og menn eru bara ósammála um hvað þetta á að vera mikið,“ segir Hrafnkell í samtali við mbl.is, en fyrirtaka var í málinu í morgun.

„Flestir hafa fengið hærri bætur en voru greiddar út á sínum tíma. Svo er bara spurning hvaða mælikvarða á að nota á það þegar ákveðin er frekari greiðsla.“

Fram til þessa hafi verið stuðst við þá aðferð að ákveða ákveðna upphæð fyrir hvern dag sem setið var í gæsluvarðhaldi og margfalda með fjölda daganna.

„Albert er á því frekar að það eigi að hafa meira með inni í jöfnunni. Miskinn er meiri en bara að hann hafi verið frelsissviptur. Þetta hefur haft meiri áhrif en það,“ segir Hrafnkell.

Næsta fyrirtaka í málinu er í september og gerir Hrafnkell ráð fyrir að þá verði tekin ákvörðun um aðalmeðferð. Hann vonast til að hún fari fram fyrir jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert