„Atvinnurekendur sýni hófsemd í eigin kjörum“

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna. mbl.is/Sigurður Unnar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur mikilvægt að tala ekki niður kröfur launafólks um bætt kaup kjör og kalla eftir ábyrgð frá því á sama tíma og launahæstu forstjórar landsins fái launahækkanir.

Þetta er meðal þess sem kom fram í ræðu Katrínar á flokks­ráðsfund­i Vinstri grænna sem fer nú fram í Ed­in­borg­ar­hús­inu á Ísaf­irði.

Hún benti á að mikilvægt væri að muna að það séu fulltrúar launafólks og atvinnurekenda sem sitja við samningaborðið í haust, en ekki stjórnvalda.

Tali af ábyrgð

„Ég hef fulla trú á því, þrátt fyrir ýmsa sem spá miklum hrakförum, að þessir aðilar muni ná góðum og farsælum samningum í vetur fyrir íslenskt samfélag og allan almenning,“ sagði Katrín. 

Hún benti á að launahæstu forstjórar landsins „fá launahækkanir sem einar nema kannski hundruð þúsunda á mánuði ásamt mögulegum kaupréttum og háum arðgreiðslum til eigenda fyrirtækjanna í landinu.“

Katrín sagði að ekki væri hægt að segja launafólki að bera ábyrgð á verðbólgunni er forstjórar sem höfðu í fyrra mánaðarlaun sem nema 15-16 földum lágmarkslaunum á vinnumarkaði, eða um 5,5 milljónum króna, og launahækkun ársins nam ein og sér einum og hálfum til tvennum lágmarkslaunum.

„Það skiptir gríðarlegu máli að atvinnurekendur sýni hófsemd í eigin kjörum og tali af ábyrgð, því við þurfum öll að ná endum saman.“ 

Sjaldan jafnmikið byggt

Katrín fór um víðan völl í ræðu sinni og nefndi meðal annars vanda húsnæðismarkaðarins.  

„Staðan á húsnæðismarkaði hefur verið erfið undanfarin misseri vegna mikillar eftirspurnar og uppsafnaðs vanda, það breytir því ekki að sjaldan hefur verið byggt jafn mikið af nýju húsnæði og á undanförnum árum og þriðjungur alls þessa húsnæðis var byggt með opinberum stuðningi,“ sagði hún og nefndi rammasamkomulag um húsnæðisuppbyggingu til næstu tíu ára.

„Markmið samkomulagsins er að byggja 35.000 íbúðir fram til ársins 2032 til að mæta íbúðaþörf og þar verður lögð verður sérstök áhersla á að tryggja þarfir ólíkra hópa með uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði og það verði að jafnaði um 30% nýrra íbúða.“

Sagði Katrín að hún telji að samkomulagið muni auka á húsnæðisöryggi og draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði.

Takast á við aukinn vopnaburð

Þá nefndi Katrín einnig harmleikinn á Blönduósi og sagði mikilvægt að það þurfi að takast á við aukinn vopnaburð, „og það gerum við með því að herða vopnalöggjöfina, sem stendur til og ég tel að sé mikilvægt. Það gerum við líka með því að opna umræðu um þessi mál. Við viljum ekki almennan vopnaburð og höfnum slíku samfélagi.“

Hún bætti við að mikilvægt væri að fara yfir hvað mætti gera betur í stjórnsýslunni og stjórnmálunum.

Flaggað í hálfa stöng á Blönduósi.
Flaggað í hálfa stöng á Blönduósi. mbl.is/Hákon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert