Milda dóm í 11 ára gömlu fíkniefnamáli

Landsréttur mildaði dóminn yfir Einari Sigurði úr þremur árum niður …
Landsréttur mildaði dóminn yfir Einari Sigurði úr þremur árum niður í tvö ár, en um 11 ár eru síðan málið kom fyrst upp. Samsett mynd

Landsréttur mildaði í dag fangelsisdóm Einari Sigurði Einarssyni úr þremur árum í tvö og hálft í tengslum við stórfellt fíkniefnasmygl sem kom upp árið 2011.

Snýst málið um innflutning á sam­tals 30.225 e-töfl­um til sölu­dreif­ing­ar í ágóðaskyni. Málið er eitt þeirra sem tekið var upp að nýju vegna Landsréttarmálsins svokallaða eftir skipun dómara við Landsrétt á sínum tíma.

Aftur í hérað eftir röð mistaka

Málið kom upphaflega upp í ágúst 2011. Þá hafði Einar Örn Adolfsson flutt efnin frá Kaupmannahöfn. Hafði Einar Sigurður ferðast til Amsterdam og svo afhent Einari Erni efnin þar, en Finnur Snær Guðjónsson hafði fengið Einar Örn til verksins.

Þá sá Einar Sigurður einnig um að greiða hluta ferðakostnaðar og uppi­halds hinna tveggja vegna ferðar­inn­ar að því er fram kem­ur í dómi héraðsdóms.

Einar Örn og Finnur voru upphaflega dæmdir í sex ára fangelsi vegna málsins í maí árið 2014, en Hæstiréttur ómerkti þann dóm í september árið eftir.

Var það vegna vanhæfis dómara, en eins og mbl.is fjallaði um var um röð mistaka að ræða og þurfti því að taka málið aftur til meðferðar í héraði. Fengu þeir að lokum fjögurra ára dóm árið 2016.

Flutti til Ástralíu eftir að málið kom upp

Einar Sigurður hafði hins vegar árið 2013 flutt til Ástralíu og var ekki væntanlegur aftur til Íslands. Var málið gegn honum því fellt niður í byrjun árs 2014. Frá árinu 2011 hafði Einar Sigurður verið búsettur í Dan­mörku, á Íslandi, í Ástr­al­íu og á Spáni. Hann hafi búið á Spáni þar til í lok janú­ar árið 2017 þegar hann kom aft­ur til Íslands.

Ákæru­vald og lög­regla höfðu ekki vitn­eskju um veru hans hér á landi fyrr en í byrj­un apríl það ár að því er seg­ir í dómi héraðsdóms yfir Einari Sigurði, en þá hafi hann átt bókað flug til Dan­merk­ur dag­inn eft­ir. Var hann því hand­tek­inn og úr­sk­urðaður í far­bann sem ekki var aflétt fyrr en við dóm­töku máls­ins.

Var Einar Sigurður í júlí 2017 svo dæmdur í fjögurra ára fangelsi í héraði fyrir sinn þátt í málinu. Landsréttur staðfesti ári síðar sakfellinguna, en mildaði dóminn í þrjú ár með hliðsjón af þeim drætti sem hafði orðið á meðferð málsins.

Áhrif af Landsréttardóminum

Í ljósi niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í desember 2020 í Landsréttarmálinu óskaði Einar Sigurður eftir endurupptöku málsins með vísan til þess að skipun eins landsréttardómara, sem dæmdi mál hans í Landsrétti, hefði brotið gegn mikilvægri málsmeðferðarreglu í undanfara skipunarinnar.

Var fallist á endurupptökuna og tók Landsréttur málið fyrir að nýju. Kemur fram í dómi Landsréttar nú að Einar Sigurður hafi óskað eftir að bíða með afplánun meðan niðurstöðu Mannréttindadómstólsins hafi verið beðið.

„Meðferð máls þessa hefur dregist úr hömlu“

Í dómi Landsréttar segir orðrétt: „Meðferð máls þessa hefur dregist úr hömlu,“ og er vísað til þess að ákæra hafi fyrst verið gefin út 21. maí árið 2013, en það var 21 mánuði eftir að rannsókn málsins hófst.

Sætti Einar Sigurður upphaflega farbanni í Ástralíu í rúmlega tvö ár, en þegar dómur féll loks í Landsrétti árið 2018 voru rúmlega sjö ár frá því að brotið átti sér stað. Segir Landsréttur að sá dráttur sem hafi orðið á málinu verði ekki rakinn að öllu leyti til Einars Sigurðar.

Er niðurstaðan því að milda dóminn í tvö og hálft ár, en tekið er fram að vegna alvarleika brotsins þyki ekki unnt að skilorðsbinda hann. Þá er allur sakarkostnaður fyrir Landsrétti felldur á ríkissjóð.

mbl.is