Óráðlegt að vera á ferðinni

Það spáir mjög slæmu veðri á sunnudag.
Það spáir mjög slæmu veðri á sunnudag. mbl.is/Arnþór

Fyrsta hríðarveðri vetrarins er spáð á sunnudaginn og fram á mánudagsmorgun með tilheyrandi appelsínugulum- og gulum viðvörunum.

Óveðrið byrjar á Vestfjörðum og gengur síðan yfir landið til austurs. Einhver slydda verður á láglendi í fyrstu en aðallega er spáð mikilli snjókomu og stormi eða roki, að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Truflun á samgöngum

Hún býst við veðri af kröftugri gerðinni sem komi til með að hafa mikil samfélagsleg áhrif.

„Væntanlega truflast allar samgöngur á sunnudaginn, þannig að ef fólk ætlar að vera eitthvað á ferðinni um helgina þá þarf að fara helst á laugardagskvöld eða bara bíða fram á mánudag,“ segir Elín Björk.

Aðspurð segir hún að rólegra verði um að litast á höfuðborgarsvæðinu. Hvassri norðanátt sé samt spáð á vestanverðu landinu. Norðan- og norðvestanátt verði sunnan til og á Suðausturlandi. Best sé að fylgjast vel með veðurspám, sem verði uppfærðar á morgun.

Jón Svanberg Hjartarson, fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum.
Jón Svanberg Hjartarson, fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum.

Óráðlegt að vera á ferðinni 

Jón Svanberg Hjartarson, fagstjóri aðgerðamála hjá almannavörnum, segir heilan sólarhring vera undir varðandi óveðrið. „Það er alveg ljóst að á sunnudaginn verður ekkert ferðaveður, sérstaklega á norðan- og norðaustanverðu landinu. Það má búast við því að það þurfi að loka vegum,“ segir Jón Svanberg og bætir við að mjög óráðlegt væri að vera á ferðinni á meðan appelsínugular viðvaranir eru í gildi.

„Það er ennþá verið að keyra á milli landshluta með rútur og þess háttar á alls konar viðburði,“ segir hann og hvetur fólk til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Veðurvefur mbl.is

Búist er við því að samgöngur muni truflast.
Búist er við því að samgöngur muni truflast. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is