„Þetta stóð sæmilega tæpt“

Mesta úrkoman var á norðanverðu landinu, að sögn veðurfræðings.
Mesta úrkoman var á norðanverðu landinu, að sögn veðurfræðings. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hviður fóru yfir 60 m/s og meðalvindur á láglendi var um 33 m/s í Hamarsfirði, á sunnanverðum Austfjörðum, í gær þar sem vindur var hvað mestur þegar óveðrið gekk yfir. Þetta segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Spurður hvort óveðrið hafi verið minna en búist var við, segir Birgir vindinn hafa verið svipaðan og búið var að spá.

Langmesta úrkoman hafi fallið á norðaustanverðu landinu en erfitt sé að segja til um nákvæmlega hve mikil hún var þar sem hún mælist illa þegar vindur er hvass. Umfang hennar kemur því ekki í ljós fyrr en fólk fer á stjá í dag. 

Óvissa um rafmagnskerfið

Þá segir Birgir mesta óvissuþáttinn hafa falist í því hvaða áhrif vindurinn og óvenjumikla úrkoman myndu hafa á innviðina og hvort rafmagnskerfið myndi þola samspil þessara tveggja veðurafla. 

„Þetta stóð sæmilega tæpt, þetta var talsverð óvissa,“ segir Birgir Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert