Biður farþega að fylgjast með spám

Svona var umhorfs í Reykjanesbæ í morgun.
Svona var umhorfs í Reykjanesbæ í morgun. Ljósmynd/Landsbjörg

„Veðuraðgerðastjórn á Keflavíkurflugvelli var kölluð saman til fundar klukkan 20 í gærkvöldi. Þar var farið yfir veðurspána á vellinum fyrir daginn í dag með fulltrúum flugfélaga og þjónustufyrirtækja sem starfa á flugvellinum,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.

Segir Guðjón meðal annars hafa verið farið yfir vindaspá nú eftir hádegið í dag. Væri því spáð að mjög bætti þá í vind enda gul viðvörun í gildi á svæðinu fram á morgun.

„Veðuraðgerðastjórnin kemur saman í hvert einasta skipti sem spáin er þess eðlis að það sé útlit fyrir að veðrið hafi mikil áhrif á þjónustuna á Keflavíkurflugvelli. Flugfélögin og þjónustuaðilarnir eru upplýstir og flugfélögin taka síðan ákvarðanir um framhaldið,“ segir Guðjón enn fremur.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir fyrirtækið hvetja farþega til að …
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir fyrirtækið hvetja farþega til að fylgjast með fréttum og veðurspám auk frétta af færð á vegum. Ljósmynd/Isavia

Farþegar beðnir að fylgjast með fréttum og spám

Hann segir vellinum ekki lokað þótt vissulega geti skapast aðstæður sem hafi í för með sér erfiðleika við að þjónusta flugvélar. „Við biðjum því farþega að fylgjast vel með fréttum og veðurspám og skoða upplýsingar á vefsíðu Keflavíkurflugvallar. Flugfélögin uppfæra sína flugáætlun á vef okkar. Þá er einnig hægt að leita nýjustu upplýsinga hjá flugfélögunum,“ heldur Guðjón áfram.

 Hann segir farþega einnig hvatta til að fylgjast vel með fréttum af færð á vegum. Erfið færð á Reykjanesi geti haft áhrif á ferðir farþega og starfsfólks á flugvellinum til og frá svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert