Ekki komið til hugar að segja af sér

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tekur ályktun ASÍ ekki nærri …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tekur ályktun ASÍ ekki nærri sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það aldrei hafa komið sér til hugar að segja af sér vegna dóms Félagsdóms, þar sem uppsögn trúnaðarmanns Eflingar var dæmd ólögmæt. 

Alþýðusamband Íslands, sem Efling á aðild að, fagnaði dóminum í ályktun sem birt var í dag og taldi hann styrkja réttarstöðu trúnaðarmanna. Sólveig Anna hefur hins vegar gagnrýnt dóminn. Byggði hann niðurstöðu sína á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

„Ályktanir sem engu skila“

Telurðu að þú þurfir að segja af þér vegna dómsins?

Nei. Mér hefur bókstaflega ekki komið sú hugsun í hug.

Tekurðu þessa ályktun til þín?

„Nei. Miðstjórn ASÍ er fyrst og fremst fær um ályktanir sem engu skila. Fremsta hlutverk miðstjórnar ASÍ er að koma saman á fundum þar sem fólk er fært um að álykta, en þegar kemur að því að standa vörð um rétt verka- og láglaunafólks á réttlátum kjörum þá er fólkið sem þarna er saman komið ekki fært um það,“ segir Sólveig og heldur áfram:

„Svo nei. Það myndi aldrei koma mér til hugar að bregðast við ályktun ASÍ með þeim hætti að ég ætli að segja af mér eða að ég taki hana nærri mér með einhverjum hætti.“

Ekki vaknað umræða um aðskilnað Eflingar og ASÍ

Spurð hvort hún telji að Efling þurfi ganga úr ASÍ, sem er stærsta fjöldahreyfing verkalýðsfélaga á Íslandi, segir hún:

„Ef slík umræða fer af stað innan Eflingar þá verður það ekki út frá þessari ályktun. Við erum ekki í sandkassaleik, þótt aðrir séu það.“

Dagana eftir hópuppsögn á skrifstofu Eflingar í apríl 2022 var trúnaðarmaður Eflingar, Gabríel Benjamin, oft til viðtals í fjölmiðlum og taldi Efling þar hann hafa brotið gegn starfsskyldum sínum sem starfsmaður Eflingar.

Því var þó slegið föstu með dómi Félagsdóms að uppsögnin væri ólögmæt, meðal annars í ljósi þeirrar ríku verndar sem trúnaðarmenn njóta samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.

Ekki var tekin afstaða til hópuppsagnarinnar í dóminum en þar er sagt að ekki sé unnt að draga fjöður yfir að þær skipulagsbreytingar og hópuppsagnir sem Efling greip til hafi reynt verulega á ábyrgð og hlutverk trúnaðarmanns félagsins.

mbl.is