Bíða enn eftir gögnum í manndrápsmálum

Íbúar Blönduóss á leið til kirkju í ágúst í fyrra. …
Íbúar Blönduóss á leið til kirkju í ágúst í fyrra. Fáninn við kirkjuna var einn þeirra fjölmörgu sem voru dregnir í hálfa stöng vegna málsins. mbl.is/Hákon

Rannsóknir lögreglunnar á Norðurlandi eystra á manndrápsmálum á Ólafsfirði og Blönduósi frá því í fyrra ganga ágætlega og er áætlað að þeim ljúki fljótlega.

Lögreglan er aftur á móti háð því að gögn sem verða til hjá öðrum stofnunum berist henni áður en lokavinna rannsóknanna getur átt sér stað, að því er segir í svari Bergs Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns við fyrirspurn mbl.is.

Niðurstöðu beðið vegna réttarkrufninga

Meðal annars bíður lögreglan endanlegra skýrslna um niðurstöðu rannsókna sem voru framkvæmdar við réttarkrufningu í báðum málunum. Einnig bíður lögreglan eftir niðurstöðum úr DNA-sýnum vegna málsins á Ólafsfirði. Þegar þessi gögn liggja fyrir verður hægt að skipuleggja tíma fyrir lokaskýrslutökur.

„Ég bind vonir við að þessu geti verið lokið í þessum mánuði, en get auðvitað ekki lofað því að svo verði,“ segir Bergur.

Frá Ólafsfirði.
Frá Ólafsfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Þrír sakborningar

Að morgni þriðja október í fyrra voru fjögur handtekin eftir að tilkynning barst um að karlmaður hafi verið stunginn með eggvopni á Ólafsfirði. Þrjú þeirra hafa réttarstöðu sakborninga; tveir karlmenn og ein kona. Maður sem grunaður er um að hafa orðið manninum að bana var látinn laus í nóvember.

Tveir hafa réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins á Blönduósi frá því ágúst í fyrra, eða maðurinn sem varð fyrir árásinni og sonur hans, sem er talinn hafa ráðið niðurlögum árásarmannsins. Tvennt lést í árásinni, eiginkona mannsins og árásarmaðurinn sjálfur, sem hafði þá náð að skjóta á hjónin með fyrrgreindum afleiðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka