Til greina kom að fresta fluginu

Farþegar sátu í fimm tíma í vél Play áður en …
Farþegar sátu í fimm tíma í vél Play áður en óhætt var talið að hleypa þeim inn í flugstöðina vegna aftakaveðurs á föstudaginn. Rúmlega tvö þúsund farþegar sátu alls fastir í fjórtán vélum vegna veðurhamsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Spáin var þannig að vindurinn átti að vera minni en raun bar vitni á vellinum og hann átti einnig að vara í skemmri tíma,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi flugfélagsins Play, í samtali við mbl.is um farþega sem sátu fastir í fimm klukkustundir í vél félagsins sem kom frá bresku borginni Liverpool á föstudaginn.

Bálhvasst var á Keflavíkurflugvelli og sátu 2.170 farþegar fastir í fjórtán flugvélum en vindhviður fóru mest upp í 28 metra á sekúndu sem er yfir þeim mörkum að óhætt teljist að hleypa farþegum úr flugvélum og inn í flugstöðina. Alls þurftu farþegar fimm véla félagsins að bíða eftir að komast út vegna veðursins, en ein vél lenti á Akureyri þar sem minna blés.

Var Nadine innt eftir því hvort til greina hefði komið að fresta fluginu frá Liverpool í ljósi válynds veðurs og kveður hún það hafa komið til greina en ekki gert þar sem veðurspá hefði gert ráð fyrir skárra veðri.

„Því miður varð raunin önnur í þetta skipti og hviðurnar sterkari og vörðu í lengri tíma en búist hafði verið við,“ segir upplýsingafulltrúinn. „Gærdagurinn fór í að vinna þetta upp, seinkun varð í leiðakerfinu en það á allt að vera komið á rétt ról í dag,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert