Mikilvægt að taka slaginn og hlusta

Ingileif hefur verið framarlega í baráttu hinsegin fólks.
Ingileif hefur verið framarlega í baráttu hinsegin fólks. Samsett mynd

„Það hefur orðið einhver undiralda haturs í þessari réttindabaráttu. Mér hefur sjaldan fundist mikilvægara að standa saman gegn þessu hatri, vegna þess að það er raunverulegt bakslag sem er í gangi,“ segir Ingileif Friðriksdóttir, annar stofnanda Hinseginleikans, í samtali við mbl.is um aukna fordóma í garð hinsegin samfélagsins. 

Hinsegin dagarnir hafa verið haldnir hátíðlegir alla vikuna og ná hæstu hæðum á morgun þegar Gleðigangan verður gengin.

Nokkuð hefur verið rætt um hvernig umræða í garð hinsegin fólks hefur breyst á síðustu árum og fordómar hafa aftur látið á sér kræla. 

Stofnaði Hinseginleikann til þess að efla fræðslu 

Ég stofnaði Hinseginleikann með Maríu konunni minni fyrir sjö árum, þannig að þessi mál hafa verið mér mjög hugleikin síðustu árin og í raun alveg síðan ég kom út úr skápnum fyrir tíu árum.

Við María höfðum verið að fræða í nokkur ár og okkur fannst þróunin vera orðin svo góð. Við vorum farnar að fara inn í skóla og hitta krakka sem voru með hlutina svo mikið á hreinu að við vorum farnar að halda að við þyrftum aldrei að fræða aftur, að þetta væri komið. En svo virðist hafa orðið bakslag í þessari baráttu,“ segir hún.

Ingileif segir að neikvæð orðræða í garð trans fólks hafi …
Ingileif segir að neikvæð orðræða í garð trans fólks hafi færst í aukana. mbl.is/Freyja

Gagnrýnin hugsun nauðsynleg

„Við sjáum það til dæmis bara í kommentakerfum undir fréttum sem verið er að deila, við sjáum þetta hjá eldra fólki, en við sjáum þetta líka hjá unglingum og ungum krökkum sem eru að sjá hatursfullt efni á netinu og eru mjög móttækileg fyrir svoleiðis efni án þess að vera að koma frá fordómafullum bakgrunni,“ segir Ingileif.

„Þetta er efni sem er sniðið til þess að fá fólk til þess að hugsa: „Þetta hljómar eins og þetta sé satt og rétt.“ Og þegar fólk er farið að sjá svona mikið af þessu efni þá verður það raunveruleikinn þeirra og gagnrýna hugsunin hverfur svolítið.“

Hún tekur fram að þetta standi henni afar nærri enda er hún sjálf hinsegin kona, en á þar að auki marga í kringum sig innan hinsegin samfélagsins sem hafa orðið fyrir auknu aðkasti.

„Það er mikið af hinsegin fólki í kringum mig eins og trans einstaklingar sem eru að verða fyrir miklum fordómum í dag og hótunum. Það er ótrúlega sorglegt að hafa verið komin svo langt og finna svo áþreifanlega fyrir bakslagi, og sannar enn og aftur hversu mikilvægt það er að við göngum gleðigönguna og séum sýnileg,“ segir hún.

Ungmenni móttækilegri

Að sögn Ingileifar hefur færst í aukana að ungmenni sýni fordómafullar skoðanir í garð hinsegin fólks. Telur hún það vera varhugaverða þróun sem verði að uppræta. 

„En það sem ég hef mestar áhyggjur af, og kom mér kannski mest á óvart, er að það er mikið af krökkum og ungmennum sem eru komin þangað í sínum skoðunum og þessi skemmdarverk sem er verið að fremja er oft hægt að rekja til ungra krakka.

Ég á ungling sjálf og hef sjálf fengið að sjá hjá honum hvaða efni er verið að beina að þessum krökkum. Þetta er bara mjög hatursfullt efni sem þau gera sér kannski ekki grein fyrir að sé hatursfullt því þetta er oft pakkað í mjög snyrtilegar umbúðir. Ég hef áhyggjur af þessum hatursáróðri sem verið er að beina að börnum en líka hversu auðvelt það er fyrir samfélagsmiðla að móta skoðanir þeirra,“ segir hún. 

Þess vegna finnst mér mikilvægt að við grípum inn í áður en þetta verður eitthvað alvarlegra, því það er hægt að snúa þessu við.“

Frá gleðigöngunni árið 2018.
Frá gleðigöngunni árið 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sýnileiki og fræðsla mikilvægast

Spurð hvernig sé hægt að snúa þessari þróun við segir hún að sýnileiki og fræðsla geti vonandi haft jákvæða þróun í för með sér. 

Við höfum alltaf imprað á því að með fræðslu þá munum við ná til eyrna fólks en ég held líka að sýnileiki almennt muni á endanum vera það sem kemur okkur vonandi út úr þessari flækju.

Því mér finnst það gefa auga leið, að þegar fólk sér að þetta eru bara manneskjur sem eru ekki að fara fram á neitt annað en að fá að lifa eigin lífi og fá að vera við sjálf, og ég held að það sé miklu auðveldara fyrir fólk að fara með einhverja orðræðu þegar það þarf ekki að horfast í augu við manneskjurnar sem eru á bak við.“

Fordómar í garð trans fólks aukist

Þá tekur hún fram að neikvæð orðræða í garð trans fólks hafi færst í aukana. 

„Þetta er veruleiki einstaklinga í samfélaginu okkar sem eru ekki að gera neinum neitt illt og vilja bara fá að vera þau sjálf. En fólk finnur sig knúið til þess að hafa skoðanir á því, fólk sem í rauninni þetta snertir ekki neitt. Það hvernig einhver manneskja skilgreinir sig hefur ekkert með næstu manneskju að gera og það að samfélagið sé tilbúið að vera með einhverjar persónulegar skoðanir á tilverurétti fólks finnst mér alveg óskiljanlegt,“ segir hún.

„Það má alveg hafa skoðanir á hinu og þessu, en það er ekki hægt að hafa skoðun á tilverurétti fólks. Tilveruréttur fólks eru þeirra mannréttindi og við getum ekki þóst hafa skoðanir á því, það er bara hatur,“ segir Ingileif. 

Hún hvetur fólk til þess að taka slaginn og láta þessi málefni sig varða og hlusta á raddir þeirra sem raunverulega tilheyra hópnum og upphefja raddir þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert