Lögfræðikostnaður nemur 23 milljónum

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það sem af er þessu ári nemur bókfærður kostnaður þjóðkirkjunnar vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu tæpum 23 milljónum króna, samkvæmt upplýsingum frá Birgi Gunnarssyni, framkvæmdastjóra rekstrarstofu kirkjunnar.

Ekki hafa fengist upplýsingar um kostnað vegna einstakra mála eða tilvika, þrátt fyrir ósk þar um.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa verulega háar fjárhæðir verið greiddar lögfræðingum vegna ráðgjafarstarfa fyrir Agnesi M. Sigurðardóttur biskup, en svo sem kunnugt er hefur biskup þurft að verja sína framgöngu í t.a.m. máli sem rekið var fyrir úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar af sr. Gunnari Sigurjónssyni, fyrrverandi sóknarpresti í Digraneskirkju, en úrskurður féll í málinu fyrr í vikunni.

Umtalsverð vinna í varnir

Af lestri úrskurðarins má ráða að umtalsverð vinna hefur verið lögð í lagalega vörn biskups í málinu sem Gunnar rak fyrir úrskurðarnefndinni, en þar er víða getið um athugasemdir og minnisblöð sem farið hafa frá þeim lögmanni sem gætti hagsmuna Agnesar í kvörtunarmáli Gunnars. Kann sú vinna að skýra áðurnefndan 23 milljóna lögfræðikostnað kirkjunnar á þessu ári, a.m.k. að hluta til.

Fram hefur komið að Agnes hyggist skjóta niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar til dómstóla, en skv. heimildum Morgunblaðsins hefur yfirstjórn kirkjuþings lítinn hug á að kostnaður vegna þess málarekstrar verði greiddur af kirkjunni, það sé frekar Agnesar að standa straum af honum, enda hlyti þar að vera um einkamál að ræða. Einnig er sagður vafi um hvort biskupi hafi yfirleitt verið heimilt að stofna til útgjalda fyrir hönd þjóðkirkjunnar, eftir að Agnes varð umboðslaus í starfi frá 1. júlí 2022.

Fyrir kirkjuþingi liggja tillögur um skipulagsbreytingar hjá þjóðkirkjunni. Þar er kveðið á um að biskup hafi ekki á hendi fjármál og önnur málefni sem varða rekstur kirkjunnar. Þau verði í höndum framkvæmdastjóra kirkjunnar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert