Hægt að bæta raforkunýtni um allt að 8%

Ein sjö virkjana sem Landsvirkjun rekur á Þjórsársvæðinu. Tækifæri til …
Ein sjö virkjana sem Landsvirkjun rekur á Þjórsársvæðinu. Tækifæri til bættrar orkunýtni á Íslandi eru samkvæmt nýlegri greiningu alls um 1.500 GWst á ári eða sem nemur um 8% af núverandi raforkunotkun hér á landi. Ljósmynd/Landsvirkjun

Tækifæri til bættrar orkunýtni á Íslandi eru samkvæmt nýlegri greiningu alls um 1.500 GWst á ári eða sem nemur um 8% af núverandi raforkunotkun hér á landi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu dönsku ráðgjafastofunnar Implement sem unnin var fyrir umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið, Orkustofnun og Landsvirkjun. Niðurstöðurnar eru kynntar á fundi nú klukkan 13:30, en hægt er að fylgjast með honum hér.

Af þessum 1.500 GWst væri hægt að spara 356GWst með núverandi tækni og án óheyrilegs kostnaðar en Sparnaði upp á 797 GWst væri hægt að ná fram með meiri fyrirhöfn og kostnaði.

Þá telst raforkusparnaður um það bil 353 GWst tæknilega og fjárhagslega erfiður í framkvæmd.

Talið er að hægt sé að ná tæpum fjórðungi af þessum orkusparnaði á næstu fimm árum og rúmum helmingi á næsta áratug.

Aukin orkuþörf samfélagsins

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að aukin orkuþörf samfélagsins á næstu árum sé staðreynd enda hafi stjórnvöld sett fram metnaðarfull loftslagsmarkmið auk þess sem fyrirsjáanleg fólksfjölgun og eðlilegur vöxtur atvinnulífsins kalli á meira framboð raforku á næstu árum og áratugum.

Samkvæmt greiningu Landsvirkjunar nemur aukin orkuþörf samfélagsins til ársins 2035 um 6.500 GWst, sem er rúmlega þriðjungs aukning á núverandi raforkunotkun.

„Til að mæta þessari auknu eftirspurn er nauðsynlegt að efla orkuvinnslu í landinu en einnig er mikilvægt að draga úr orkusóun og nýta þannig endurnýjanlegar orkuauðlindir þjóðarinnar á enn ábyrgari hátt.“

Greining danskrar ráðgjafastofu

Danska ráðgjafarstofan Implement vann greiningu fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkustofnun og Landsvirkjun en helstu niðurstöður eru þær að stærstu auðsóttu tækifærin til orkusparnaðar sé að finna í einkageiranum og opinberri þjónustu, eða um 320 GWst.

Þá sé einnig að finna stór tækifæri í bættri orkunýtni til hitunar þar sem notast er við raforku eða um 178 GWst. Bæta má nýtni raforku um 357 GWst með endurnýtingu glatvarma frá iðnaði og með bættri nýtni raforku í áliðnaði um 112 GWst.

Þá gerir greiningin ráð fyrir að einnig séu tækifæri til bættrar nýtingar innan heimila eða um 58 GWst, í landbúnaði um 43 GWst, í framleiðslu járnlausra málma  um 38 GWst og hjá fiskimjölsverksmiðjum  um 24 GWst.

Tækifæri felist einnig í að minnka tap í flutningskerfi raforku um 25 GWst, segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert