Einstakar aðstæður mynduðust við eldgosið í Fagradalsfjalli

Segja vísindamenn að gagnasafnið í kjölfar eldgossins í Fagradalsfjalli vera …
Segja vísindamenn að gagnasafnið í kjölfar eldgossins í Fagradalsfjalli vera það besta í heimi um efnasamsetningu eldfjallagass. mbl.is/Kristinn Magnússon

Einstakar aðstæður við eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 leiddu til þess að vísindamenn við jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og erlent samstarfsfólk þeirra gat með nýrri tækni greint eldfjallagas sem dregur upp skýrari mynd af gangakerfi og kvikustrókavirkni. 

Þessi tímamótarannsókn var birt í tímaritinu Nature Communications í nóvember. Sagt er frá á vef Háskóla Íslands. 

Í eldgosinu við Fagradalsfjall voru sex vikur sem einkenndust af mjög háum kvikustrókum. Voru þeir á bilinu 100 til 400 metra háir og stóðu yfir í nokkrar mínútur. 

Einstakar aðstæður voru 5. maí 2021 sem gerði vísindamönnum kleift að komast í um 30 metra fjarlægð frá eldgosinu og taka þar sýni af gasi. 

Stjórnast af afgösun gass úr kviku

Niðurstöður mælinganna sýna að kvikustrókavirkni stjórnast af afgösun gass úr kviku. Í eldgosinu við Fagradalsfjall hafi slík afgösun gass og tímabundin uppsöfnun átt sér stað á nokkurra tuga metra dýpi í holrými, ekki ósvipuðu og menn þekkja í Þríhnjúkagíg, sem síðan hafi gosið og myndað kvikustróka.

Í greininni í Nature Communications benda vísindamennirnir á að eldgosið hafi töluvert ólíkt fyrri hraungosum sem hafa verið mikið rannsökuð, eins og í Kīlauea á Havaí og Etnu á Sikiley.

Kvikan í síðarnefndu gosunum hafi komið úr kvikuhólfum á innan við fimm kílómetra dýpi en eins og rannsóknir hafa sýnt virðist kvikan í Fagradalsfjalli hafa átt uppruna sinn í kviku sem myndast á miklu dýpi á mótum jarðskorpu og möttuls.

Um sex vikna skeið einkenndist eldvirknin í Fagradalsfjalli af kvikustrókum.
Um sex vikna skeið einkenndist eldvirknin í Fagradalsfjalli af kvikustrókum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Besta gagnasafn í heimi

Enn fremur benda vísindamennirnir á að í samanburði við gos í Kīlauea eða Etnu hafi kvikustrókarnir í gosinu í Fagradalsfjalli verið mun reglulegri með styttri hléum og því hafi vaknað sú spurning hvað ráði eðli kvikustróka.

Með því að nýta nýja tækni, innrauðar myndbandsupptökur, tókst vísindamönnunum að afla afar nákvæmra gagna um efnasamsetningu eldfjallagassins í Fagradalsfjalli. Segja sérfræðingar að þetta sé án efa besta gagnasafn sem nokkurn tíma hefur verið aflað af efnasamsetningu eldfjallagass.

Niðurstöður rannsóknanna hafa mikla þýðingu fyrir vísindin og samfélagið. Nú er hægt að afla mjög nákvæmra gagna í rauntíma um magn og samsetningu gass sem losnar út í andrúmsloftið í eldgosum, sem aftur hefur áhrif á loftgæði og heilsu fólks.

Enn fremur gefur samsetning gassins innsýn í eðli eldgosa og með nákvæmum mælingum í framtíðinni er vonast til að hægt verði að spá betur fyrir um framvindu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert