Hægist á landrisi en gos ekki útilokað

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, ræðir við mbl.is um landrisið …
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, ræðir við mbl.is um landrisið sem mælist við Svartsengisvirkjun. Samsett mynd

Hægst hefur á landrisi við Svartsengi á Reykjanesskaga en þó hefur það ekki alveg stöðvast. Fyrir þessu eru líklega tvær útskýringar. Sú fyrri gefur til kynna að virknin sé að lognast út af en sú seinni að framundan sé mögulegt gos.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is.

Hann segir tvær útskýringar líklegastar fyrir því að landris fari minnkandi. Annars vegar að dregið hafi úr kvikuinnflæði í kvikuganginn en hins vegar að það sé komin það mikil spenna í skorpuna að hún haldi meira við og sé að nálgast þolmörk.

„En líklegasta útskýringin er að það sé svona hægt og rólega að draga úr flæðinu þarna inn,“ segir Þorvaldur.

Á vef Veðurstofunnar segir að vísbendingar séu uppi um að hægst hafi á landrisinu síðustu daga, en að nauðsynlegt sé að bíða eftir frekari gögnum til að túlka mögulega þróun atburðarásarinnar. Vísindafólk mun funda um stöðuna eftir helgi og verður nýtt hættumatskort gefið út á miðvikudag sem mun endurspegla túlkun nýjustu gagna.

Þróunin á landrisi við Svartsengi frá því í síðasta mánuði.
Þróunin á landrisi við Svartsengi frá því í síðasta mánuði. Kort/Veðurstofa Íslands

Sprungur gætu myndast í skorpunni

Þorvaldur fer nánar yfir seinni útskýringuna:

„Þegar þú ert búinn að teygja og teygja á skorpunni þá er þetta eins og með teygju: Það er auðvelt að trekkja hana fyrst en þegar þú ert kominn með hana alveg í botn þá er alltaf erfiðara og erfiðara að ná henni lengra út. Það getur verið það sama að gerast þarna.

Þú ert búinn að strekkja eins mikið á skorpunni og þú mögulega getur og þá verður erfiðara að ýta henni upp og þá þarftu meira afl.“

Ef þessi útskýring reynist vera ástæðan má búast við því að sprungur myndist í skorpunni og myndi þar af leiðandi líklega verða eldgos. Þorvaldur segir því enn ekki hægt að útiloka eldgos.

Hann ítrekar þó að hann telji meiri líkur á fyrri útskýringunni, að virknin sé að lognast út af. Hann telur ómögulegt að segja til um það hvort virknin muni aukast aftur en sem fyrr þurfi að vakta svæðið náið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert