Hefja viðræður um sameiningu Bifrastar og HA

Starfsemi sameinaðs skóla verður aðallega á Akureyri.
Starfsemi sameinaðs skóla verður aðallega á Akureyri. Samsett mynd/mbl.is/Sigurður Bogi

Háskólaráð háskólanna á Bifröst og á Akureyri hafa samþykkt að hefja sameiningarviðræður. Þetta staðfestir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst í samtali við mbl.is.

Gera háskólastigið á Íslandi samkeppnishæfara

Segist Margrét vera virkilega ánægð með fyrirhugaða sameiningu og segir hún að öll vinna í tengslum við áformin hafi haft það að leiðarljósi að gera háskólastigið á Íslandi samkeppnishæfara. Hún segir markmiðið vera að búa til nýjan alþjóðlegan rannsóknarháskóla.

„Það hefur verið mikill og góður samhljómur eins og lesa má um í fýsileikaskýrslunni,“ segir Margrét.

Samkeppnisfærni krefst ákveðinnar stærðar

Margrét segir að með því að sameina deildirnar þrjár á Bifröst við deildirnar þrjár á Akureyri styrkist þær og eflist.

„Til þess að háskólar séu samkeppnisfærir á alþjóðlegum grundvelli þá þurfa þeir ákveðna stærð. Það þarf að losa starfsfólk háskólanna undan því að vera með mjög marga hatta á höfði hverju sinni þannig að þeir geti sérhæft sig og sótt í stóra evrópska samkeppnissjóði.“

Gera jafn vel og enn betur 

Hún segir að með sameiningunni fjölgi starfsfólki í deildunum, deildirnar verði sterkari og að starfsfólk fái næði til að sérhæfa sig.

Hún segir að báðir háskólarnir séu uppteknir af því að viðhalda þeim góðu persónulegu tengslum sem hafa verið við nemendur. Hún segir nemendur beggja skóla ánægða með áformin og að báðir háskólarnir muni bæði halda áfram að gera jafn vel og þeir hafi gert hingað til og enn betur í nýjum sameinuðum háskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert