Biskup fer ekki lengur með fjármál þjóðkirkjunnar

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kirkjuþing sem nú stendur yfir samþykkti í gær þá breytingu á stjórnskipulagi þjóðkirkjunnar að í stað framkvæmdanefndar kirkjuþings komi sérstök stjórn þjóðkirkjunnar sem fer með yfirstjórn daglegs rekstrar og framkvæmd ákvarðana kirkjuþings. Heyrir stjórnin undir kirkjuþing. Breytingin var samþykkt mótatkvæðalaust.

Skv. nýju skipuriti kirkjunnar fer kirkjuþing með æðsta vald í málefnum hennar, þar með talið fjárstjórnarvald, nema lög mæli öðru vísi fyrir um. Kirkjuþing markar einnig stefnu þjóðkirkjunnar í sameiginlegum málefnum hennar, öðrum en þeim sem lúta að kenningu hennar, en hún heyrir undir biskup Íslands. Biskup gætir og einingar kirkjunnar og hefur tilsjón með kristnihaldi og þjónustu.

Undir stjórn kirkjunnar mun framkvæmdastjóri hennar heyra, en hann framfylgir ákvörðunum, fer með fjármálastjórn, eignaumsýslu og rekstur sameiginlegrar stjórnsýslu og stoðþjónustu. Framkvæmdastjórinn fer einnig með launa-, kjara- og mannauðsmál.

Hefur breytingin það í för með sér að biskup hefur ekki lengur með fjármál kirkjunnar að gera, en sinnir bara kennimannlegum efnum og undir hann heyra vígslubiskupar, prófastar, prestar og djáknar og sérþjónusta.

Í dag er áformað að kosið verði til hinnar nýju stjórnar þjóðkirkjunnar, en hana munu skipa fimm menn sem skulu vera kirkjuþingsfulltrúar og koma úr röðum aðalmanna. Þrír þeirra skulu vera úr hópi óvígðra, en tveir úr hópi vígðra. Formaður kemur úr röðum leikmanna og kosinn sérstaklega, en stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert