Meiri óvissa við Svartsengi en áður

Kvikusöfnunin undir Svartsengi er á sama stað og dýpi og …
Kvikusöfnunin undir Svartsengi er á sama stað og dýpi og áður, samkvæmt líkanreikningum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi, með sambærilegum hraða og fyrir kvikuhlaupið 2. mars.

Þetta sýna nýjustu aflögunarmælingar og gervitunglagögn, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Líkanreikningar byggðir á þeim gögnum eru sagðir staðfesta að kvikusöfnunin undir Svartsengi er á sama stað og dýpi og áður.

Þurft að ná 10 milljón rúmmetrum

Tekið er fram að í tengslum við eldgosin tvö fyrr á árinu, og kvikuhlaupið 2. mars, hafi það sýnt sig að heildarmagn í kvikuhólfinu hafi þurft að ná um 10 milljón rúmmetrum áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúkagígaröðina.

Möguleg tímasetning á næsta eldgosi hefur verið byggð á því að reikna út magn kviku sem hleypur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í gígaröðina í hvert sinn og síðan hversu marga daga það mun taka að safna aftur upp í sambærilegu magni kviku undir Svartsengi.

Í kvikuhlaupinu 2. mars er áætlað að um 1,3 milljón rúmmetrar af kviku hafi farið frá kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi yfir í gígaröðina, sem er mun minna en í fyrri kvikuhlaupum síðustu mánuði.

Farvegurinn mögulega breyst

„Síðan þá er áætlað að um 4 milljón rúmmetrar af kviku hafi bæst við undir Svartsengi, en ekki hefur komið til kvikuhlaups eða eldgoss,“ segir í tilkynningunni.

Er það sagt benda til þess að mögulega hafi átt sér stað einhver breyting á þeim farvegi sem kvikan hefur leitað í yfir í Sundhnúkagígaröðina.

„Í ljósi þess er því meiri óvissa nú en áður um hversu mikið magn kviku þarf að safnast fyrir undir Svartsengi til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi.

Meiri óvissa er því nú en áður um tímasetningu á næsta kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi.“

Þó er tekið fram að áfram séu mestar líkur taldar á því að kvikan hlaupi yfir í Sundhnúkagígaröðina og þá mögulega eldgosi á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert