Á annan tug bíla sátu fastir á Austurlandi

Fimm bílar frá björgunarsveitunum á Austurlandi sinntu útkallinu.
Fimm bílar frá björgunarsveitunum á Austurlandi sinntu útkallinu. mbl.is/Hari

Á annan tug faratækja sátu föst á leiðinni frá Mývatni, niður í Jökuldal og að Háreksstaðaleið á Möðrudalsöræfum í gærkvöldi. Björgunarstarfi lauk á fjórða tímanum í nótt. 

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi slysavarnarfélagsins Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Snjóþekja, hálkublettir og hálka voru víða um leiðina og skyggni lélegt á nokkrum stöðum. Þá var þjóðvegi eitt um Hárekstaðaleið á Möðrudalsöræfum lokað þar sem nokkrir bílar sátu fastir. 

Þó nokkuð mikil ófærð

Útkallið barst björgunarsveitum á Austurlandi á tíunda tímanum í gær og segir Jón Þór fimm bíla frá björgunarsveitunum hafa farið í verkefnið. Voru það bílar frá björgunarsveitinni á Mývatni, Egilsstöðum, Vopnafirði og Jökuldal. 

„Þarna varð þó nokkuð mikil ófærð og vel á annan tug bíla sem sátu fastir hist og her á þessari leið,“ segir Jón Þór og tekur sem dæmi að þarna hafi setið fastir bæði fólksbílar, húsbílar og vörubílar.

Þá segir Jón Þór að snjómokstursbíll frá Vegagerðinni hafi verið kallaður til aðstoðar og lauk bjögunarstarfi eins og áður segir á fjórða tímanum í nótt.

Einhverjir bílar voru skildir eftir og fólk flutt til gistingar en aðrir bílar voru losaðir í nótt og gátu vegfarendur farið ferða sinna áfram. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert