Fagnar frumvarpi um þjóðarsjóð

Hálslón, inntakslón Kárahnjúkavirkjunar.
Hálslón, inntakslón Kárahnjúkavirkjunar. mbl.is/Sigurður Bogi

Landsvirkjun fagnar því að frumvarp um Þjóðarsjóð hafi verið lagt fram að nýju á Alþingi og styður áform um stofnun hans. 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, lagði frumvarpið fram í mars. Slíkt frumvarp var fyrst lagt fram árið 2018 og endurflutt árið 2019 en afgreiðslu þess frumvarps var slegið á frest vegna breyttra aðstæðna af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Frumvarpið nú er að mestu samhljóða frumvarpinu sem síðast var lagt fram en nú er gert ráð fyrir að það taki gildi 1. janúar 2025. Þar er gert ráð fyrir að veita skuli framlög til Þjóðarsjóðs sem séu jafnhá öllum tekjum sem ríkissjóður hafi haft af arðgreiðslum, leigutekjum og öðrum tekjum vegna nýtingar orkuauðlinda á forræði ríkisins frá orkufyrirtækjum á næstliðnu ári. Þá getur sjóðurinn veitt viðtöku og ávaxtað aðra fjármuni sem Alþingi ákveður að leggja til hans í fjárlögum.

Metafkoma árið 2023

Landsvirkjun hefur sent efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis umsögn um frumvarpið og segir þar að arðgreiðslugeta fyrirtækisins hafi á undanförnum árum aukist umtalsvert. Árið 2023 var metafkoma þriðja árið í röð en hagnaður jókst um 19% frá fyrra metári, 2022. Fjárhagsstaða fyrirtækisins hafi aldrei verið betri en eiginfjárhlutfall sé nú hærra en nokkru sinni fyrr eða 65,4%. Í ljósi þess að árið 2023 hafi verið besta rekstrarár í tæplega 60 ára sögu Landsvirkjunar hafi stjórn Landsvirkjunar ákveðið, eftir umleitan efnahags- og efnahagsráðherra, að hækka arðgreiðslu í 30 milljarða króna. Samanlagður arður vegna rekstraráranna 2021-2023 nemi nú rúmum 65 milljörðum króna.

Landsvirkjun segist vera sammála því að skynsamlegt sé að arðgreiðslutekjur verði ekki nýttar eins og hver annar tekjustofn til þess að standa undir reglubundnum ríkisútgjöldum og renni það enn styrkari stoðum undir áform um Þjóðarsjóð.

Áhersla verði lögð á græna og sjálfbærnistengda eignaflokka

„Ísland hefur fullgilt Parísarsamning Sameinuðu þjóðanna og skuldbundið sig til að leggja sitt af mörkum til að markmiðum samningsins um að takmarka áhrif loftslagbreytinga verði náð. Ísland er eitt af fáum löndum í heiminum sem vinna allt sitt rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum og mun Þjóðarsjóður, meðal annars með arðgreiðslum Landsvirkjunar, byggja á tekjum af endurnýjanlegum orkuauðlindum. Landsvirkjun fagnar því að í greinargerð með frumvarpinu sé tekið fram að græn skuldabréf eða sjóðir samsettir úr þeim fái tiltekið vægi í eignasafni Þjóðarsjóðs. Landsvirkjun vill nýta tækifærið og hvetja til þess að áhersla verði lögð á græna og sjálfbærnitengda eignaflokka í fjárfestingastefnu sjóðsins,“ segir m.a. í umsögn Landsvirkjunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert