Fleiri leiðir þarf til að mæta orkuþörf

Enginn atburður á að geta slegið út Suðurnesin. Því sé …
Enginn atburður á að geta slegið út Suðurnesin. Því sé mikilvægt að innleiða fleiri leiðir til að auka orkuöryggi mbl.is/Arnþór Birkisson

Heita vatnið er einn helsti orkugjafi Íslands og þegar hraun flæðir yfir hitaveitulagnir er mikilvægt að til sé önnur leið til að mæta orkuþörf Suðurnesja. Fleiri en ein leið orkustreymis er mikilvæg til að auka orkuöryggi.

Áfallaþol núverandi innviða er ekki nægilega sterkt til að mæta orkuþörf Suðurnesja ef aðstæður verða verri. Þetta kom fram í erindi Hjartar Jóhannssonar, raforkuverkfræðings hjá Eflu, á fagþingi orkugeirans.

Hjörtur ræddi um mikilvægi orkuöryggis á Suðurnesjum á tímum eldsumbrota þar sem hann brýndi fyrir mikilvægi þess að innleiða nýja leið sem tryggi orkuöryggi, óháð óvissunni sem jarðhræringarnar bjóða upp á.

Suðurnesjalína 2 til að bæta áfallaþol

Gríðarmikil orka er unnin á Suðurnesjunum svo mikilvægt er að gera ráðstafanir. Hjörtur talar fyrir mikilvægi þess að leggja Suðurnesjalínu 2, því með tilkomu hennar yrði áfallaþol Suðurnesjanna bætt til muna. Hann segir að kerfislægar forsendur séu nú þegar til staðar og með tilkomu línunnar verði hægt að mæta orkuþörf Suðurnesja þegar upp komi alvarlegustu sviðsmyndirnar.

Suðurnesjalínan sem nú þegar stendur getur flutt ákveðið magn raforku en núverandi kerfi er ekki í stakk búið að mæta raforkuþörf Suðurnesja ef ske kynni að atburðir færu á versta veg. Með tilkomu línu 2 myndi orkuflutningurinn aukast og þar með geta flutt meira afl til Suðurnesja, auk þess að veita svæðinu meira orkuöryggi.

Mikilvægt er að hafa verkfæri sem geta hjálpað okkur að byggja upp kerfi sem hefur áfallaþol því enginn atburður á að geta slegið út Suðurnesin.

Mikilvægt að búa yfir lausnum áður en forgangsorku skortir

Úlfar Linnet, forstöðumaður viðskiptaþjónustu Landsvirkjunar sló svo botninn í málstofuna með erindi sínu um fyrirsjáanleika á orkuöryggi. Sagði hann að tækifæri væri til staðar að tryggja orkuöryggi, það þyrfti bara að grípa það.

Þó þyrfti að sammælast um mælikvarða. Mikilvægt sé að búa yfir lausnum áður en forgangsorku skortir og þurfa lausnirnar að vera hagkvæmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert