Þarf að endurskoða áfengislöggjöfina

Netverslun áfengis hefur orðið æ vinsælli, í nokkurri óþökk ÁTVR.
Netverslun áfengis hefur orðið æ vinsælli, í nokkurri óþökk ÁTVR. mbl.is/Unnur Karen

Skýra þarf þau gráu svæði sem gera einkaaðilum kleift eða ókleift að selja áfengi í smásölu, að mati formanns efnahags- og viðskiptanefndar, sérstaklega þegar mörkin milli netsölu og hefðbundinnar smásölu verða „óljósari“.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formanns efnahags- og viðskiptanefndar, segir við mbl.is að tryggja þurfi jafnræði milli innlendra og erlendra söluaðila á grundvelli EES-samningsins.

Hagkaup hyggjast hefja netverslun á áfengi í næstu viku, sem hefur vakið gremju hjá forsvarsmönnum ÁTVR sem hafa lengi verið ósáttir við óljóst lagaumhverfið.

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

Óskýr mörk milli verslunar og netverslunar

Er það eðlilegt hvernið þessi mál [þ.e. smásala einkaaðila á áfengi] hafa æxlast?

„Þetta er eðlilegt, úr því sem komið er að innlendir [sölu]aðilar skoði þetta form, eins og hefur verið hér í gangi um einhver misseri og árabil,“ svarar Teitur.

„Það eru auðvitað grá svæði varðandi netverslun. Hvar eru mörkin dregin? Og hvernig á að tryggja jafnræði milli innlendra og erlendra söluaðila á grundvelli EES-samningsins,“ bætir hann við. Hann bendir á að það sé stefna Sjálfstæðismanna að skýra þessi gráu svæði.

En það varðar aðeins netsöluhlutann, ekki smásöluhlutann.

„Það kunni að vera að með breyttri tækni og verslunarháttum að mörkin milli netsölu og hefðbundinnar smásölu verða óljósari. Það kann að vera. Það er að mínu mati enn frekari ástæða til þess að taka þessa löggjöf til endurskoðunar,“ segir Teitur.

Hann tekur að lokum fram að einokun ÁTVR á áfengi í smásölu sé „algjörlega úrelt fyrirbæri“ og eigi sér enga réttlætingu sem heitið getur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert