20 gráða múrinn rofinn: Sumarblíða á Húsavík

Á meðan 13 gráður mælast í höfuðborginni eru 21 stiga …
Á meðan 13 gráður mælast í höfuðborginni eru 21 stiga hiti á Húsavík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Í dag mældist 21,5 stiga hiti á Húsavík. Tuttugu gráðu múrinn var brotinn víða á Norðausturlandi í dag og búast má við svipaðri hlýju á morgun, að sögn veðurfræðings.

Hlýjast hefur verið á Húsavík í dag en hitastig hefur einnig verið hátt víða í Eyjafirði og náð 18 gráðum á Akureyri. Næstheitast hefur verið við Rauðanúp rétt norður af Melrakkasléttu.

„Þetta er eiginlega dagurinn í dag og morgundagurinn,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurður hvort búast megi við svipuðum tölum næstu daga.

Líklega aðeins kaldara á morgun

Á morgun má aftur á móti búast við aðeins mildara veðri fyrir norðan, þar sem vindurinn verður líklega hægari. Hafgola myndi þannig blása hlýja vindinum suður inn í landið, en samt ekki nógu langt suður til þess að Sunnlendingar njóti góðs af því, að sögn Óla. 

Enn má búast við hlýindaveðri á mánudag og þriðjudag, þó ekki eins háum tölum

Á suðurhluta landsins er ekki gert fyrir eins miklu blíðindaveðri og hefur verið fyrir norðan í dag. Búast má við hátt í 13 gráðum í Reykjavík og Keflavík í dag. Á Vestfjörðum er einnig hlýindaveður, hátt í 16 gráður á Ísafirði og Hólmavík.

Núll gráður mældust á Bárðarbungu í dag, sem er það kaldasta sem mælst hefur í dag, samkvæmt veðurvefnum Bliku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert