Hef áhuga á andlegri heilsu

Halla Tómasdóttir hefur áhyggjur af andlegri heilsu bæði ungmenna og …
Halla Tómasdóttir hefur áhyggjur af andlegri heilsu bæði ungmenna og eldra fólksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla Tómasdóttir, forsetaframbjóðandi, kveðst hafa mikinn áhuga á andlegri heilsu og hyggst nýta embættið til að vekja athygli á mikilvægi málaflokksins. Bæði brennur hún fyrir andlegri heilsu unga fólksins sem og eldri kynslóðarinnar.

„Ég hef ofboðslega mikinn áhuga á andlegri heilsu fólks og ekki síst unga fólksins. Við erum að sjá rannsóknir sem sýna aukningu á kvíða, þunglyndi, sjálfsskaða og sjálfvígum,“ segir Halla og vill að Bessastaðir fari fyrir kynslóðasamtali þar sem hinir eldri geta deilt visku sinni til þeirra yngri.

„Hjá eldra fólki er einmanaleiki að vaxa mjög mikið. Andleg heilsa er nokkuð sem ég hugsa mikið um því ég held að lykilinn að góðri samfélagsheilsu sé að við séum með góða andlega heilsu og sem forseti myndi ég vilja virkilega leggja áherslu á að hjálpa til við það,“ segir Halla og vill að við skilum betri heimi til barnanna okkar.

Hvernig sérðu fyrir þér að taka þessa sýn inn í embættið?

„Ég myndi annars vegar vilja nýta Bessastaði til að leiða fólk saman til samtals og samstarfs um þessa langtímasýn á grunni þessara gilda okkar. Hins vegar, jafnvel samhliða því, fara fyrir ákveðnu átaki í að bæta andlega heilsu því við þurfum að vera í lagi sjálf til þess að samfélagsleg heilsa okkar sé góð og uppbyggileg svo við getum átt uppbyggilegt samtal og samstarf um framtíðina. Takist okkur að gera það held ég að Ísland geti orðið fyrirmynd,“ segir Halla og vill að Ísland verði fyrirmynd annarra þjóða þegar kemur að því að finna sjálfbærar lausnir við helstu áskorunum heimsins.

„Við eigum að nýta allan okkar mannauð og hugsun um jafnrétti í víðum skilningi þess orðs og vera fyrirmyndir,“ segir Halla og vill einnig að Ísland, sem friðsæl þjóð, vinni að friði í heiminum.

„Ég tel okkur búa yfir mjög miklum styrkleikum sem við getum nýtt til að búa til mjög spennandi tækifæri hér en til að þessi spennandi tækifæri verði til þarf andleg heilsa okkar að vera góð, samfélagsleg heilsa góð og áttavitinn skýr og rétt stilltur.“

Ítarlegt viðtal er við Höllu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert