Marta er talskona sjúklinga

Marta Jóns Hjördísardóttir, talskona sjúklinga á Landspítalanum.
Marta Jóns Hjördísardóttir, talskona sjúklinga á Landspítalanum. Ljósmynd/Landspítalinn

Marta Jóns Hjördísardóttir hefur verið ráðin talskona sjúklinga á Landspítalanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni. Starfið er nýtt stöðugildi hjá Landspítalanum, sem hefur sett sér stefnu að auka áherslu á fagmennsku í samskiptum við sjúklinga og aðstandendur, auka samtal við sjúklingasamtök og að halda áfram að bæta ferli umbóta í kjölfar athugasemda sjúklinga.

Marta útskrifaðist með BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 2010, MPM-gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2017 og er að ljúka við MS-gráðu í hjúkrunarstjórnun við Háskóla Íslands.

Hún hefur unnið á Landspítala frá 2007 þegar hún hóf störf sem hjúkrunarnemi. Marta hefur sinnt fjölbreyttum störfum innan Landspítala, unnið á legudeildum, á menntadeild, formaður fagráðs Landspítala, sinnt starfsmannahjúkrun og nú síðast á verkefnastofu þar sem hún hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum m.a. stofnun transmiðstöðvar á Landspítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert