Felldu framboðslista í NV-kjördæmi

Píratar felldu framboðslistann í NV-kjördæmi.
Píratar felldu framboðslistann í NV-kjördæmi.

Píratar hafa fellt framboðslista sem var niðurstaða prófkjörs sem fram fór í Norðvesturkjördæmi í ágúst, með rafrænni kosningu. 272 greiddu atkvæði, þar af 153 eða 56,25% gegn staðfestingu listans.

RÚV greindi fyrst frá, en niðurstaða úr kosningunum varð ljós klukkan 16 í dag. Þýðir þetta að kjósa verður á ný í prófkjöri, og munu allir Píratar á landinu þá taka þátt. Kjördæmisráð Pírata í Norðvesturkjördæmi fundar í kvöld og tekur ákvörðun um hvenær nýtt prófkjör fer fram. 

Þórður Guðsteinn Pét­urs­son, sem hafnaði í efsta sæti í síðasta próf­kjöri í kjördæminu, var sakaður um að hafa smalað kjósendum sem er bannað samkvæmt reglum flokksins. Þórður braut þó ekki gegn próf­kjörs­regl­um kjör­dæm­aráðs Pírata á Norðvest­ur­landi þar sem regl­an, sem bann­ar kosn­ingasmöl­un, tók ekki gildi fyrr en eft­ir að smöl­un­in átti sér stað. 

Í færslu á Face­book-síðu sinni í kjöl­far próf­kjörs­ins sagði Þórður Guðsteinn Pét­urs­son að hann hefði fengið fólk til að skrá sig í flokk­inn í aðdrag­anda próf­kjörs­ins. Orðrétt seg­ir Þórður í færsl­unni: „…já ég fékk systkini mín (eru 5 í n.v.) og nokkra vini til að skrá sig í flokk­inn, kring­um 20-30 manns og ég mun halda því stöðugt áfram.“ 

Í athugasemdum, sem meðlimir Pírata geta skráð með sínu atkvæði í kosningakerfi flokksins, er óánægja með smölun Þórðar áberandi. „Ég tel að nauðsynlegt sé að fella þennan lista, þar sem oddviti hans hefur sýnt af sér hegðun sem ég get ekki talið eðlilega hjá fulltrúa stjórnmálaafls sem berst fyrir nýjum vinnubrögðum. Hann hefur þvert á móti gengist upp í því að spila gamla leikinn,“ skrifar einn. 

„Þessi kosning mun setja mikilvægt fordæmi innan flokksins um hvað fólki raunverulega finnst um smölun, og aðrar löglegar fléttur, sem part af ábyrgri stjórnsýslu. Í komandi framtíð verður vitnað í þessa niðurstöðu til að útkljá svipuð mál þar sem farið er á skjön við anda reglna án þess að brjóta þær beint,“ skrifar annar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert