Brigsl, svik og óheiðarleiki

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Styrmir Kári

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir þá stöðu sem upp er komin í flokknum bestu leiðina til að tryggja að Framsóknarflokkurinn lifi ekki fram að 100 ára afmælinu. Færi svo yrði það alfarið á ábyrgð Sigurðar Inga Jóhannssonar varaformanns flokksins og forsætisráðherra.

Að sögn Vigdísar kom lýsing Sigurðar á atburðarásinni 5. apríl sl., þegar tilkynnt var að Sigmundur Davíð myndi segja af sér sem forsætisráðherra, henni í algjörlega opna skjöldu.

Forsætisráðherra var meðal viðmælenda í þættingum Sprengisandi á Bylgjunni í dag og sagði þar m.a. að þegar hann hefði mætt á þingflokksfund fyrrnefndan dag í apríl hefði þingflokkurinn verið búinn að ákveða að setja Sigmund af og leita til Sjálfstæðisflokksins um áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Frétt mbl.is: Voru búin að ákveða að setja Sigmund af

„Þegar hún kemur fram hjá Sigurði Inga á þingflokksfundinum á föstudaginn, þessi lýsing sem þú ert að lýsa frá því í apríl 2016, þá kom það mér algjörlega í opna skjöldu því mér hefur greinilega verið haldið fyrir utan þessa atburðarás og þetta plott. Því ég eiginlega vissi aldrei hvað var um að vera á þessum þingflokksfundi í apríl 2016 og mig vantar enn mörg púsluspil til að átta mig á því hvað gerðist þennan dag,“ segir Vigdís.

Vigdís segir augljóst að þennan örlagaríka dag í apríl hafi eitthvað átt sér stað á bakvið tjöldin, en neitar því að þingflokkurinn hafi verið búinn að koma sér saman um framhaldið.

„Nei, þingflokkurinn var ekki búinn að ákveða neitt,“ segir hún við fullyrðingum Sigurðar Inga. „Þetta voru einhverjir aðilar í kringum hann sem voru búnir að ákveða að atburðarásin yrði svona.“

Ekki verið að tala fyrir alla

Vigdís margítrekar að þegar þingmenn og ráðherrar tali um þingflokkinn séu þeir greinilega að tala um hluta hans, „því ég sit í þessum þingflokk og það getur enginn talað fyrir mig því það vita allir að ég styð Sigmund Davíð allan tímann.“

Þingmaðurinn endurómar einnig það sem Sigmundur Davíð hefur haldið fram, þ.e. að Sigurður Ingi hafi marglofað því að fara ekki á móti Sigmundi.

Frétt mbl.is: Sigmundur „ekkert hrópandi kátur“

„Þetta er náttúrlega svakalega einkennilegt í ljósi þess að svo gefur Sigurður Ingi allar þessar yfirlýsingar í sumar að hann ætli „aldrei, aldrei, aldrei“ á móti formanninum og það er búið að birta á netinu klippur og viðtöl. Og vitandi þetta. Ég var grunlaus í allt sumar um að þetta hefði verið gert með þessum hætti, að fá einhvern hluta þingflokksins á móti Sigmundi Davíð þarna í apríl. Ég var algjörlega grunlaus um það.“

Frétt mbl.is: „Aldrei, aldrei, aldrei“

Vigdís segir málið „súrt“.

„Fullt af brigslum, svikum og óheiðarleika. En ég meina, ef menn vilja ekki að flokkurinn verði hundrað ára, þá er þetta besta leiðin til þess. Það er bara þannig. Og þá ber núverandi varaformaður flokksins fulla ábyrgð á því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina