Voru búin að ákveða að setja Sigmund af

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var á leið frá Bessastöðum örlagaríkan þriðjudag í apríl, var þingflokkur Framsóknarmanna að taka ákvörðun um að setja forsætisráðherrann af og biðja varaformann flokksins og þingflokksformanninn að fara á fund Sjálfstæðismanna til að ræða áframhald stjórnarsamstarfsins.

Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar á Sprengisandi á Bylgjunni í dag en þar fór núverandi varaformaður yfir atburðarásina þriðjudaginn sem Sigmundur tilkynnti að hann hygðist víkja úr sæti forsætisráðherra í kjölfar uppljóstrana úr Panamaskjölunum.

Frétt mbl.is: Sigmundur „ekkert hrópandi kátur“

Sigurður vék fyrst að meintum loforðum sem Sigmundur hefur sagt að Sigurður hafi gefið um að fara ekki gegn sér. Sagði Sigurður Sigmund vísa til samtals sem átti sér stað í kjölfar þess að Sigurður var kjörinn varaformaður 2013, en þá hafi menn gert því skóna að hann væri orðinn ógn við Sigmund.

Þeir áttu fund í kjölfarið þar sem Sigurður sagðist ánægður með varaformannsembættið og að hann hefði ekki hug á formannsembættinu. Síðan hefði mikið vatn runnið til sjávar og samstarf þeirra Sigmundar verið gott.

Í vor hafi hins vegar orðið trúnaðarbrestur milli formannsins og þingflokksins og boðað til þingflokksfundar kl. 13 umræddan þriðjudag. Þegar Sigurður mætti á fundinn var þingflokkurinn búinn að taka ákvörðun um að setja forsætisráðherra af og leita á fund Sjálfstæðisflokksins um áframhaldandi samstarf en Sigurður fékk tækifæri til að setja Sigmund inn í þróun mála þegar síðarnefndi kom til baka frá Bessastöðum.

Sigurður segist ekki hafa verið sannfærður um að Sigmundur áttaði sig á því sem hefði gerst síðustu klukkstundirnar þennan dag, en hann gerði honum ljóst að hann væri búinn að missa stuðning þingflokksins. Skömmu síðar komst Sigmundur að sömu niðurstöðu og þingflokkurinn, að hann myndi víkja og Sigurði Inga og Ásmundi Einari Daðasyni yrði falið að ræða við Sjálfstæðisflokkinn.

„Ein vika er langur tími í pólítik,“ sagði Sigurður Ingi á Sprengisandi og ítrekaði að hann hefði ekki gefið loforð um að gera ekki eitthvað um alla framtíð en hins vegar hefði hann samþykkt að leyfa Sigmundi að fylgjast með.

Frétt mbl.is: „Aldrei, aldrei, aldrei“

Sigurður sagði að sér hefði fundist það sjálfsagt, þótt það hefði vissulega verið áhyggjuefni að vera með aftursætisbílstjóra.

Hvað varðaði ásakanir Sigmundar þess efnis að Sigurður hefði sett hann út í kuldann hefðu þeir rætt það í vor og Sigurður rætt við Bjarna Benediktsson um að funda með Sigmundi, en ekkert hefði orðið úr því vegna annríkis þeirra þriggja.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Vantar auðmýkt í stjórnmálin

Sigurður sagði að á þessum tíma, þegar Wintris-málið kom upp á yfirborðið, hefði pólítíkin farið á annan endann og mikilvægasta verkefni hans verið því að mynda ró í kringum pólitíkina, ríkisstjórnina og Alþingi.

Hann sagði að strax hefðu komið fram sterkar skoðanir á því hvort Sigmundur ætti að segja af sér sem formaður Framsóknarflokksins en hann hefði viljað gefa honum tækifæri til að endurheimta traust flokksins og kjósenda og gert allt sem í sínu valdi stóð til að verja Sigmund næstu vikur og mánuði.

Fékk hann stundum skammir fyrir, bæði frá flokksmönnum og vinum.

Það hafi hins vegar orðið ljóst í júlí, þegar Sigmundur sendi frá sér bréf sem menn töldu fela í sér gagnrýni á ríkisstjórnina og forsætisráðherra, að breyting varð á afstöðu magra framsóknarmanna. Þá hefðu margir farið að hvetja Sigurð Inga til að bjóða sig fram. Sagði Sigurður bréfið óþægilegt upphaf þess sem síðar varð.

Aðspurður játaði Sigurður því að þær fylkingar sem hann hefði freistað þess að halda í skefjum væru nú komnar fram og sagðist því telja heiðarlegast að ganga til flokksþings og kjósa milli manna.

Hann neitaði því að hreinlegast hefði verið að taka ákvörðun um málið á sínum tíma. Margir hefðu viljað gefað formanninum færi á að endurheimta traust og trúverðugleika. Hann ítrekaði að deilurnar snerust ekki um málefnin, heldur um það hver væri líklegastur til að sýna traust og trúverðugleika til að leiða Framsóknarflokkinn.

Sigurður sagði pólitíkina hafa harnað eftir hrun en það sem vantaði væri auðmýkt, það væri það sem fólkið í landinu vildi. Hann sagði það ekki þurfa að þýða minni málefnalega umræðu, heldur væri þetta spurning um að fara í boltann en ekki manninn.

Hann sagði að þeir Sigmundur hefðu rætt það í vor að ákveðin sóknartækifæri gætu falist í því að Sigmundur einbeitti sér að undirbúningi kosninga en hann að því að stýra ríkisstjórninni. Þetta hefði mistekist.

Spurður að því hvað hann hefði vilja sjá frá Sigmundi, talaði forsætisráðherra um auðmýkt og afsökunarbeiðnir. Hann sagði marga vera tilbúna til að fyrirgefa margt. Hann hefði rætt um þetta við Sigmund og vonaði að hann hefði hlustað.

Sigurður sagðist myndu halda áfram störfum sínum fyrir Framsóknarflokkinn og kjördæmi sitt þótt hann tapaði í formannskosningunum. Hann sagðist ekki draga dul á það að það hefði verið erfið ákvörðun að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni og að hann gerði sér fyllilega grein fyrir því að ekkert yrði eins og áður var.

mbl.is

Bloggað um fréttina