Segir tilganginn að koma höggi á sig

Bjarni telur alveg augljóst að verið sé að reyna að …
Bjarni telur alveg augljóst að verið sé að reyna að koma höggi á hann og Sjálfstæðisflokkinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur að tilgangurinn með umfjöllun Stundarinnar um að hann hafi selt eignir í Sjóði 9 rétt fyrir hrun og hafi haft innherjaupplýsingar úr Glitni, sé að koma höggi á hann og Sjálfstæðisflokkinn. Hann segir hins vegar til svör við öllu því sem fram kemur í þeirri umfjöllun og að hann sé tilbúinn að veita þau. Umfjöllun Stundarinnar er unnin í samstarfi við Reykjavík Media og The Guardian.

„Auðvitað hafði maður áhyggjur í upphafi þessarar kosningabaráttu að menn færu niður á þetta plan. Ég fæ þau tíðindi frá þeim erlenda blaðamanni sem hafði samband við mig að menn hafi legið á þessum gögnum í nokkrar vikur og eru að koma með þau í dag. Það eru engar tilviljanir í þessu,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is.

Þannig þú vilt meina að tilgangurinn sé að koma höggi á þig og flokkinn?

„Já, það er alveg augljóst,“ segir Bjarni.

Hafnar því að salan hafi tengst fundi með bankastjóra

Í umfjöllun Stundarinnar er sagt að Bjarni hafi, stöðu sinnar vegna haft upplýsingar um raunverulega stöðu Glitnis vegna þátttöku sinnar á fundum um slæma stöðu bankans og fjármálakerfisins í heild. Hann hafi svo nýtt þessar upplýsingar til að bjarga sjálfum sér frá því að tapa peningum í bankahruninu. Bjarni hitti meðal annars þá Lárus Welding, þáverandi bankastjóra Glitnis, og Illuga Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmann í Sjóði 9, á fundi þann 19. Febrúar 2008.

Aðspurður hvað kom fram á þessum fundi, svarar Bjarni: „Í fyrsta lagi hafna ég því alfarið að sala bréfanna hafi tengst fundinum með Lárusi Welding. Ég seldi sannarlega bréf í febrúarmánuði 2008, en hlutabréfamarkaðirnir höfðu lækkað mjög hressilega frá áramótum á þessum tíma. Forsíða Morgunblaðsins í janúar snérist um að bankarnir þyrftu að hætta við útgáfu skuldabréfa á alþjóðlegum mörkuðum af því þeir höfðu ekki markaðsaðgang. Leiðarar Morgunblaðsins á þessum tíma töluðu um alþjóðlega fjármálakrísu. Hlutabréf í bankanum voru að lækka, og lækkuðu mikið í janúar og febrúar. Það er í því samhengi sem ég ákveð að selja hlutabréfin, en ég geymi peningana áfram í bankanum,“ segir Bjarni, en samtals seldi hann hlutabréf í Glitni fyrir tæplega 120 milljónir króna á þessum tíma. Hluta af söluhagnaðinum, eða um 90 milljónir króna, notaði hann til að kaupa hlutdeildarskírteini í Sjóði 9. Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að Bjarni hafi átt samtals 165 milljónir króna í Sjóði 9 í mars árið 2008.

En geturðu sagt mér hvað kom fram á þessum fundi?

„Á fundinum með Lárusi Welding þá sátum við Illugi og vorum að velta fyrir okkur hvaða aðgerða stjórnvöld gætu mögulega gripið til, til þess að bregðast við og auka tiltrú á markaðnum. Við listuðum það upp í Morgunblaðsgrein hvað það var sem við teldum að gæti komið að gagni. Við vorum ekki mættir þarna til að spyrja um stöðu Glitnis, hvernig hann stæði fjárhagslega. Við vorum mættir þarna til að ræða það hvað við gætum gert til að styrkja stöðu íslenska fjármálakerfisins. Við skrifuðum svo um það grein og lögðum fram tillögur í framhaldinu. Eftir fundinn með Lárusi og mörgum öðrum úr fjármálakerfinu.“

Þannig sala þín á hlutbréfum á þessum tímapunkti voru bara viðbrögð við stöðunni eins og hún var orðin? Það sama og aðrir eigendur hefðu gert?

„Já. Ég var bara að draga úr áhættu eins og allir aðrir, enda voru bréfin á  hraðri niðurleið og komin upp alþjóðleg fjármálakrísa.“

Var beðinn um að koma á fund með öðru fólki

Hvað sölu á eignum úr Sjóði 9 dagana 2. til 6. október 2008 varðar, segir Bjarni svipaðar ástæður liggja þar að baki. Hann hafi selt eignir vegna almennrar vitneskju um slæma stöðu bankans. Hann segist ekki hafa haft neinar innherjaupplýsingar úr bankanum, líkt og haldið er fram í umfjöllun Stundarinnar, þrátt fyrir að hafa setið neyðarfund í höfuðstöðvum Stoða þann 28. september þar sem rætt var um stöðu Glitnis. Fram kemur í umfjöllun Stundarinnar að Bjarni hafi selt eignir fyrir 50 milljónir króna í Sjóði 9 á þessu tímabili.

Bjarni segist í samtali við mbl.is ekki hafa setið neyðarfund Glitnis. „Þú getur ekki sagt að ég hafi setið neyðarfund Glitnis. Ég var beðinn um að koma og þessu er öllu lýst í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Ég var beðinn um að koma á fund með öðru fólki í höfuðstöðvum Stoða.“

En þetta var neyðarfundur vegna stöðunnar í bankanum?

„Jú, það lá fyrir að það var komin upp mjög þröng staða já.“

Á þessum fundi hlýturðu að hafa fengið einhverjar upplýsingar sem almenningur hafði ekki?

„Á þessum fundi voru tilteknir lykilmenn í bankanum að leitast eftir því að halda okkur, eins og öllum öðrum, upplýstum um stöðu bankans. Í því samhengi töldu þeir að staða bankans væri gríðarlega sterk og það væri hægt að vinna sig út úr þessu. Annað kom í raun og veru ekki fram. Þetta var fundur sem var haldinn að þeirra beiðni.“

En í kjölfarið ferð þú að selja eignir þínar í sjóðnum?

„Nei, það næsta sem gerist er að ríkið ákveður að taka 75 prósenta hlut í bankanum. Ríkið ákveður að kaupa 75 prósent eignarhlut í bankanum en það gerðist reyndar ekki. Eftir að það er orðið opinbert að það sé nauðsynlegt að ríkið kaupi þrjá fjórðu hlutafjár í bankanum og hlutabréf á íslensku mörkuðunum voru í frjálsu falli, enn og aftur, þá já, færi ég mig úr Sjóði 9 yfir í Sjóði 5 og 7.“

„Auðvitað voru þetta mjög miklir peningar fyrir mig“

Bjarni segir vert að hafa það í huga að Sjóður 9 átti ekki kröfu á Glitni. Sjóður 9 hafi ekki verið Glitnir. Sjóðurinn hafi átt kröfur á fyrirtæki út um allan bæ og stóð og féll með því hvernig þeim vegnaði. „Þannig það er í raun og veru alveg sama hvað ég hefði vitað um akkúrat bankann sem slíkan. Sjóður 9 stendur ekki og fellur með því hvernig bankanum gengur. Enda fór bankinn á hausinn, en þeir sem áttu hluti í Sjóði 9 og þurftu að sæta skerðingu, fengu samt að því mig minnir um 80 prósent til baka. Þarna er verið að blanda saman algjörlega óskyldum hlutum.“

Þú komst allavega í veg fyrir að þú tapaðir einhverjum peningum?

„Ég færði mig úr meiri áhættu í minni og það byggði ekki á því sem kom fram á þessum fundi. Það byggði á  heildarmati á stöðu mála. Ég gerði þetta eins og hundruð ef ekki þúsundir annarra viðskiptamanna bankanna.“

Bjarni var spurður út í það í þættinum Víglínunni á Stöð 2 í fyrra hvort hann hefði átt í Sjóði 9 og selt eitthvað dagana fyrir bankahrunið. Hann svaraði því til að það ekki verið neitt sem skipti máli. Hann hefði átt eitthvað í sjóðum, en ræki ekki minni til að það hafi skipt einhverju máli. Staðreyndin er hins vegar sú að Bjarni seldi eignir fyrir 50 milljónir.

50 milljónir eru, fyrir flesta, dágóð upphæð ekki satt?

„Jú, það er alveg rétt. Þegar ég var beðinn um að rifja það upp á staðnum hvernig hlutirnir hafi gerst fyrir átta árum síðan, þá fannst mér að ég hefði verið búinn að selja meira af Sjóði 9 heldur en raunin var á þessum tíma fyrir hrunið. Það sem ég hafði gert var að ég færði mig á milli sjóða, byggt á þeim almennu upplýsingum sem allir höfðu. Ég sé í sjálfu sér ekki að það hafi neina þýðingu í þessu samhengi sem er verið að teikna hér  upp.“

Þú varst ekki að segja að þessar 50 milljónir skiptu engu máli?

„Auðvitað voru þetta mjög miklir peningar fyrir mig. Ég taldi bara að ég hefði verið búinn að færa þetta úr Sjóði 9 fyrr á árinu 2008.“

Bjarni segir vert að hafa í huga að í vikunni sem sala hans á eignum í Sjóði 9 fór fram, þá hafi sjóðnum verið lokað í nokkra daga. Var það gert í kjölfar þess að ákvörðun var tekin um að ríkið tæki yfir stóran hluta Glitnis. Hann hafi hins vegar ekki selt eignir úr sjóðnum fyrr en hann var opnaður aftur. „Þá hafði gengið lækkað og þá bið ég um að þetta sé selt. Það skiptir miklu máli að menn rifji upp það sem var að gerast þarna.“

Minnist þess ekki að hafa talað við Einar

Í umfjöllun Stundarinnar kemur fram að Bjarni hafi miðlað upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu til framkvæmdastjóra fjárfestingabankasviðs Glitnis, Einars Arnar Ólafssonar, vinar síns, þann 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett. Einar miðlaði svo upplýsingunum áfram til Lárusar Welding bankastjóra, að kemur fram í Stundinni. Þar er vísað í tölvupóst frá Einari til aðstoðarmanns Lárusar: „Bjarni ben segir að … fme séu á skrilljón að vinna í þessu núna … einhver að tala við Jónas?“

Bjarni segir hins vegar ekki til nein gögn um að hann hafi veitt Einari einhverjar upplýsingar og þessi tölvupóstur sýni það ekki. „Ég gæti hafa sagt þetta við einhvern allt annan eða í útvarpsviðtali þess vegna. Ég minnist þess ekki að hafa átt samtali við Einar Örn á þessum tíma, en það er ekkert í þessum tölvupósti annað en almenn sannindi og augljós á þessum tíma. Þetta er eftir að ríkið ætlar að taka yfir Glitni og að sjálfsögðu er FME að vinna á fullu í því máli. Eg hafði engar upplýsingar um hvað var að gerast í FME aðrar en að verið væri að vinna í málunum. Það er algjörlega fráleitt að ég hafi verið að miðla einhverjum upplýsingum frá FME inn í bankann.“

Ræddi breytingar á löggjöf við bankastjórann

Í Stundinni er einnig greint frá því að árið 2005 hafi Bjarni beðið Bjarna Ármannsson, þáverandi bankastjóra Glitnis, um athugasemdir og hugmyndir við lagafrumvarp hvernig Fjármálaeftirlitið gæti bætt upplýsingagjöf sína. Bjarni segir ekkert athugavert vera við þau samskipti.

„Þetta var mjög eðlilegt. Þingið gerir þetta líka. Þingið sendir öllum hagsmunaðaðilum til umsagnar frumvörp sem eru í smíðum. Í þessu tiltekna máli þá höfðum við áður rætt að það væri betra að Fjármálaeftirlitið upplýsti um sektir og ákvarðanir sem það tæki frekar en að yfir því hvíldi einhver leynd. Við höfðum rætt það áður að við þyrftum að breyta löggjöfinni á Íslandi með þeim hætti að það væri opinbert þegar menn væru sektaðir fyrir að ganga gegn lögum. Um það snérist þessi póstur.“

Bjarni segir að aldrei hafi neitt af því sem er að koma fram í dagsljósið núna gefið tilefni til þess að hann fengi frekari spurningar af hálfu þeirra sem hafa rannsakað þau mál. „Þessi mál hafa öll komið aftur og aftur til skoðunar og verið rannsökuð og það hefur ekkert óeðlilegt fundist. Það hafa engin lög verið brotin. Samskiptin við Glitni voru eðlileg og það er í sjálfu sér ekkert nýtt að koma fram í þessum gögnum nema dagsetningar og fjárhæðir. Það sem sendur upp úr er að ég var ekki að taka peninga út úr bankanum, ég var að færa þá á milli sjóða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina