„Knattspyrnustjóri velur ekki bara stjörnur“

Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er ánægður með niðurstöðuna. En eftir að við höfðum gengið frá vinnunni þá lak heilmikið út um listann sem voru auðvitað vonbrigði,“ segir Sveinn H. Skúlason, formaður kjörnefndar um framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna sem kynntur var og samþykktur á fulltrúaráðsfundi í gær.

Sveinn segir að á meðan kjörnefndin hafi unnið að framboðslistanum hafi ekkert lekið út en eftir að listinn hafði verið samþykktur á síðasta fundi nefndarinnar hafi farið að leka út upplýsingar um hann. Sveinn segir aðspurður að eðlilega séu skiptar skoðanir um framboðslistann eins og gengið hafi verið frá listanum að lokum en tveir sitjandi borgarfulltrúar, Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir, eru ekki á honum.

„Það er mjög eðlilegt að miklar umræður séu um framboðslistann enda eru þarna nokkuð miklar breytingar. Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé á ferðinni mjög flottur listi. En ég viðurkenni alveg að þarna er ákveðið reynsluleysi af borgarmálunum, það er ákveðin áhætta í þessu en hins vegar hefur þetta fólk reynslu annars staðar frá.“

Þess utan sé einn sitjandi borgarfulltrúi á listanum og varaborgarfulltrúi. Segist Sveinn hafa fulla trú á að þeir sem á listann völdust geti unnið saman. „Knattspyrnustjóri, hann velur ekki bara stjörnur í hópinn sinn. Hann reynir að velja liðsmenn sem vega hvora aðra upp og geta unnið saman. Stjörnurnar eru góðar með en það er liðsheildin sem gildir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina