Ekki ástæða til að ógilda kosningarnar

Tveimur kærum sem bárust vegna kosninganna í Árneshreppi hefur verið ...
Tveimur kærum sem bárust vegna kosninganna í Árneshreppi hefur verið hafnað. mbl.is/Golli

„Ekkert af því sem var í þessum kærum var talið þess efnis að það væri hægt að ógilda kosningarnar og það er meginatriðið að mínu mati,“ segir Eva Sveinbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps. Tveim­ur kær­um um ógildingu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­inga í Árnes­hreppi hefur verið hafnað af þriggja manna kjörnefnd sem sýslumaðurinn Vestfjörðum skipaði eftir sveitastjórnarkosningarnar.

Fyrri kær­an kom frá Sig­hvati Lárus­syni. Hann er einn þeirra fimmtán ein­stak­linga sem voru gerðir aft­ur­reka með lög­heim­il­is­flutn­ing sinn í Árnes­hrepp eft­ir skoðun Þjóðskrár Íslands í aðdrag­anda kosn­inga og strikaðir út af kjör­skrá hrepps­ins í kjöl­farið. Taldi hann þá ákvörðun fela í sér grófa mis­mun­un.

Hin kær­an var frá þeim Elíasi Svavari Krist­ins­syni og Ólafi Vals­syni sem gerðu at­huga­semd­ir við fjöl­mörg atriði varðandi fram­kvæmd sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna, en aðallega laut kær­an þó að gildi kjör­skrár í hreppn­um.

Nefndin hafnaði kröf­um kær­endanna um ógild­ingu sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna í hreppn­um og kveðst Eva vera ánægð með þá niðurstöðu.

Hún er búin að fara lauslega yfir úrskurði kærunefndarinnar, sem voru annars vegar fimm og hins vegar þrett­án blaðsíðna langir, og segist vera sátt við það sem þar kemur fram. „Ekkert af því sem var í þessum kærum var talið þess efnis að það væri hægt að ógilda kosningarnar og það er meginatriðið að mínu mati,“ segir Eva.

Kostnaðurinn við vinnu nefndarmannanna fellur á Árneshrepp samkvæmt 100. gr. laga um kosn­ing­ar til sveit­ar­stjórn­ar og er hún ekki alveg jafn sátt við það. „Ég er náttúrulega ekkert voðalega ánægð með það, en þannig er þetta bara,“ segir Eva.

Spurð hvort að hún viti hversu hár kostnaðurinn er segir hún reikninginn ekki enn hafa borist hreppsnefndinni. Hún gæti hins vegar vel trúað því að reikningur vegna vinnu lögfræðinganna þriggja sem skipuðu nefndina nemi hátt í milljón á mann.

Eva samsinnir að því að slík upphæð sé vissulega högg fyrir jafn lítið sveitarfélag og Árneshrepp. „Það eina sem að við í nýkjörinni hreppsnefnd getum gert er að leita ásjár hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna mikils stjórnsýslukostnaðar og  biðja um styrk vegna þessa.“

Engin slíkt vinna er þó farin í gang, enda nýkjörin hreppsnefnd ekki búin að halda sinn fyrsta fund, en Eva vonast þó til að hann verði haldinn eftir helgi. „Ég er reyndar ekki búin að ná í einn þessara hreppsnefndarmanna, en ég geri ráð fyrir að það sé ekkert til fyrirstöðu að fyrsti fundurinn verði haldinn næsta mánudag,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina