Píratar óttast samþjöppun auðs

Píratar óttast að kórónuveiran og kreppan sem henni fylgir valdi því að fjármunir færist á fárra hendur. Það sé reynslan erlendis frá.

Þetta kemur fram í viðtali þar sem Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata á vettvangi Dagmála í dag.

Hún segir nýfrjálshyggju hafa verið sú stefna sem rekin hafi verið hér á landi um langt skeið og að þeirri hugmyndafræði hafi fylgt sú afstaða að ekki sé hægt né heldur þörf á að uppræta fátækt. Hún sé ósammála þeirri nálgun og telji að umfangsmiklar kerfisbreytingar geti komið því til leiðar.

Hún telur að samþjöppun fjármagns muni eiga sér stað vegna kreppunnar hér á landi, jafnvel þótt opinberar tölur Hagstofu Íslands bendi til þess að kaupmáttur lægstu launa hafi aukist meira undanfarin misseri en þeirra sem hærri hafa tekjurnar.

Í viðtalinu er talsverðu púðri eytt í að varpa ljósi á hugmyndir Pírata um innleiðingu borgaralauna sem myndu þegar allt er talið kosta ríkissjóð hundruð milljarða í auknum útgjöldum á ári hverju. Flokkurinn vill hins vegar innleiða þá stefnu í skrefum, fyrst með því að hækka persónuafslátt um 25 þúsund krónur og greiða hann að fullu út til þeirra sem ekki vilja vinna. Halldóra metur kostnaðinn við þá innleiðingu á rúmlega 50 milljarða króna.

Segist hún vilja leggja allt púður samfélagsins í að uppræta fátækt. Það sé nauðsynlegt nú þegar við stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum á borð við fjórðu iðnbyltinguna þar sem störf muni tapast en einnig vegna loftslagsbreytinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert