Bjarni skýtur á formann Framsóknar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir lítil rök hníga að mikilvægi þess að auka skattbyrði íslenskra fyrirtækja. Nær sé að bæta samkeppnishæfni þeirra.

Hann er gestur í Dagmálum þar sem hann ræðir skattkerfið og þær hugmyndir sem fram hafa komið í kosningabaráttunni um aukna tekjuöflunarmöguleika ríkissjóðs.

Frekar ætti að boða lægri skatta

„Við höfum verið að gefa þessum fyrirtækjum frekar skattaafslátt til þess að hvetja þau til að stunda rannsóknir og þróun á Íslandi og ég held að það sé miklu betri leið til að skapa störf og búa til verðmæti á Íslandi heldur en að boða nýja skatta. Eins og ég segi, það mun draga úr samkeppnishæfni slíkra fyrirtækja í alþjóðlegu tilliti. Það er einfaldlega erfitt að sýna fram á þörfina fyrir viðbótarskattgreiðslur sem skila tiltölulega litlu skila til ríkisins í milljörðum en draga verulega úr vilja fyrirtækjanna til að starfa áfram hér. Við eigum miklu frekar að boða lægri skatta og fá fleiri hingað inn,“ segir Bjarni m.a.

Hann virðist beina gagnrýni sinni sérstaklega að Sigurði Inga Jóhannssyni sem nú talar fyrir því að þau fyrirtæki sem skila meira en 200 milljóna króna hagnaði á ári verði skattlögð meira en nú er raunin. Framsóknarflokkurinn hefur m.a. á stefnuskrá sinni að auka endurgreiðsluhlutfall vegna þess kostnaðar sem fellur til við kvikmyndagerð hér á landi úr 25% í 35%. Fór Sigurður yfir þær hugmyndir í Dagmálum í liðinni viku.

Um þetta segir Bjarni:

„Taktu eftir því að sömu flokkar og segja, svona stór fyrirtæki þurfa að fara að borga hærri skatta. En í hinu orðinu er sagt að ef stór fyrirtæki koma frá útlöndum og fara að búa til bíómyndir og annað hér þá skulum við bara borga það allt úr vasa skattgreiðenda. Það þarf að vera eitthvert samhengi í hlutunum. Þ.e. menn ætla að endurgreiða þeim innlendan kostnað að stórum hluta til. Við höfum svo sem verið að gera það með ágætum árangri en það er óraunhæft að gera það upp á einhverja milljarðatugi.“

Viðtalið við Bjarna má sjá í heild sinni hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert