Útlit fyrir marga flokka og veikt umboð

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir ekki sjálfsagt að hún muni leiða næstu ríkisstjórn að loknum kosningum. Á sama tíma og ríkisstjórnin hefur almennt komið vel út í könnunum hefur enginn forsætisráðherra í lýðveldissögunni haft jafn lítið fylgi á bak við sig. 

Katrín bendir á að stjórnmál hafi breyst mjög síðastliðin 10 ár eða svo. „Það er ekki lengur kerfi fjórflokksins. Það eru komnir miklu fleiri flokkar á svið og allar líkur til að það verði níu flokkar á Alþingi að loknum þessum kosningum. Sem segir mér að lögmálin sem giltu hér fyrir hrun gilda kannski ekki alveg um stjórnmálin eins og þau eru núna,“ segir Katrín.

Hún var gestur í Dagmálum þar sem forsvarsmenn stjórnmálaflokka ræddu stöðuna fyrir komandi þingkosningar. Fóru umræðurnar fram í höfuðstöðvum Morgunblaðsins við Hádegismóa í Reykjavík. 

Katrín segir fylgi Vinstri grænna á kjörtímabilinu hafa verið á bilinu 10 til 14 prósent. Spurð hvort þjóðin megi búast við því að forsætisráðherra hafi fylgi einungis 10 til 15 prósent kjósenda svarar hún: „Ég get náttúrulega ekkert sagt til um það.“

Umræðuþáttur Dagmála við forsvarsmenn stjórnmálaflokka er í tveimur hlutum hér á mbl.is og má nálgast viðtalið við Katrínu í heild sinni í seinni hluta þáttarins.

mbl.is