Varsla kjörgagna alvarlegasti annmarkinn

Kjörbréfanefnd fundar eftir setningu Alþingis í dag.
Kjörbréfanefnd fundar eftir setningu Alþingis í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alvarlegasti annmarkinn sem varð á framkvæmd Alþingiskosninganna í Norðvesturkjördæmi lýtur að vörslu kjörgagna á meðan yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis gerði hlé á fundi sínum sunnudaginn 26. september klukkan 7:35 og þar til hún kom aftur saman um klukkan eitt þann sama dag.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í greinargerð kjörbréfanefndar sem birt var í dag. 

Fram kemur í greinargerðinni að fyrir liggi að kjörgögn voru geymd í opnum kössum í rými sem ekki var læst að öllu leyti eða innsiglað og öryggismyndavélar náðu ekki til. Jafnframt liggi fyrir að fjórir starfsmenn hótelsins höfðu aðgang að því svæði þar sem kjörgögnin voru geymd.

„Samkvæmt upplýsingum lögreglu var starfsfólk hótelsins á sama tíma á ferðinni inn og út úr fremri sal. Sé þetta allt virt verður að telja að alvarlegur annmarki hafi verið á vörslu kjörgagnanna. Reynir þá á hvort þeir hafi haft áhrif á að við seinni talningu atkvæða urðu umtalsverðar breytingar á atkvæðatölum framboða, sem áhrif höfðu á úthlutun jöfnunarsæta í kjördæminu og á landsvísu,“ segir í greinargerðinni. 

Við athugun nefndarinnar á því hvort ætla megi að annmarki á vörslu kjörgagna hafi haft áhrif á úrslit kosninganna í skilningi laga um kosningar til Alþingis leitaðist nefndin við að varpa ljósi á þau atriði sem skipt geta máli við matið;

„Í umfjöllun nefndarinnar hafa á hinn bóginn komið fram ólík sjónarmið um það hvernig meta skuli áhrif annmarkans. Í fyrsta lagi hafa komið fram þau sjónarmið að fyrir hendi séu nægar upplýsingar svo að hægt sé að fullyrða að annmarki á vörslu kjörgagna frá því að yfirkjörstjórn frestaði fundi og þar til hún kom saman á ný 26. september 2021 hafi ekki haft áhrif á úrslit kosninganna og endurspegli þar með lýðræðislegan vilja kjósenda í kjördæminu. Er þá byggt á því að engar vísbendingar hafa komið fram um að átt hafi verið við kjörgögn,“ segir í greinargerðinni. 

„Í öðru lagi hefur það andstæða sjónarmið komið fram að ekki hafi tekist að sýna fram á að kjörgögn hafi verið varin á umræddu tímabili og því sé fyrir hendi annmarki sem gæti hafa haft áhrif á úrslit kosninganna enda breyttust tölur milli talninga og því sé ekki tryggt að úrslitin lýsi vilja kjósenda í kjördæminu. Loks er það sjónarmið að ekki hafi annað komið fram en að kjörgögnin hafi verið varin og því beri að mæla fyrir um endurtalningu atkvæða í þriðja sinn að gættum ákvæðum kosningalaga, en með því megi ráða bót á þeim annmörkum sem hafi verið til staðar milli fyrri og seinni talningar.“

Í ljósi þessa mun það koma í hlut kjörbréfanefndar að leggja fram tillögur um afgreiðslu kjörbréfa byggðar á mati á áhrifum fyrirliggjandi annmarka á fimmtudag. Enn fremur kemur fram í greinargerðinni að annmarkar hafi verið á því hvernig yfirkjörstjórn brást við þegar í ljós kom misbrestur í flokkun atkvæða hjá lista Viðreisnar;

„Hefði kjörstjórnin við þær aðstæður átt að stöðva þá þegar athugun sína á atkvæðum C-lista og halda þeim átta seðlum merktum D-lista og einum seðli merktum B-lista aðgreindum, bóka slíkt í gerðabók og bóka sérstaka ákvörðun um frekari athugun á kjörgögnum. Við þá athugun, þ.m.t. við athugun á umræddum atkvæðaseðlum, var mikilvægt að umboðsmenn framboðslista væru viðstaddir og gætt væri að skilyrðum laga um kosningar til Alþingis að öðru leyti. Þó svo að telja verði þennan annmarka allnokkurn verður ekki séð að hann hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

mbl.is