Jórunn Pála vill fjórða sætið í borginni

Ljósmynd/Jórunn Pála

Jórunn Pála Jónasdóttir borgarfulltrúi sækist eftir fjórða sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Jórunni.

Jórunn er 32 ára lögfræðingur með málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi. Hún er búsett í Breiðholti með börnunum sínum tveimur.

Áður hefur hún búið í borgum erlendis og ferðast um heiminn. „Það er mín skoðun að Reykjavík er enginn eftirbátur í alþjóðlegum samanburði og hingað getum við laðað að hugvit og hæfileika,“ segir í tilkynningunni.

Framboðslisti sjálfsstæðismanna endurspegli fjölbreytni

Þetta er í fyrsta sinn sem Jórunn gefur kost á sér í prófkjöri en hún hefur verið í sveitarstjórnarpólitík frá árinu 2014. Hún hefur verið frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og nefndarmaður í nefndum Reykjavíkurborgar.

Frá síðustu borgarstjórnarkosningum, árið 2018, var hún fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en frá síðan 2021 hefur hún verið borgarfulltrúi í afleysingum fyrir borgarfulltrúann Egil Þór Jónsson.

„Borgarstjórn stendur frammi fyrir ýmsum áskorunum á næstu misserum. Á sama tíma og Reykvíkingar vita ekki hvernig eigi að fjármagna rekstur borgarlínu er Strætó í rekstrarvanda. Fyrirsjáanlegur skortur á íbúðum hefur leitt til mikillar hækkunar á raunvirði íbúða en þrátt fyrir að nóg sé til af hagkvæmu byggingarlandi á að gera landfyllingu á verndarsvæði í Skerjafirði,“ segir Jórunn.

„Mikilvægt er að framboðslistinn í vor endurspegli fjölbreytni mannlífsins í allri Reykjavík, þar á meðal hverfanna okkar. Ég vil leggja áherslu á skynsamlega fjármálastjórn borgarinnar, vandaða stjórnsýslu og borg þar sem heilsa og líðan er í fyrirrúmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert