Stærðin skiptir nefnilega máli

Forrit á borð við YouTube taka tillit til eiginleika samlokusímans …
Forrit á borð við YouTube taka tillit til eiginleika samlokusímans og breyta um útlit þegar síminn er hálfopnaður. Ásgeir Þórarinn Ingvarsson

Það skemmtilegasta við blaðamennskuna er að stundum eru dótadagar í vinnunni.

Einn af mínum eftirminnilegustu dótadögum var þegar ég fékk að reynsluaka Rolls-Royce Phantom fyrir bílablað Morgunblaðsins og spanaði á sex metra langri drossíunni um suðurhluta Þýskalands. Það var eitthvað einstakt við það að aka þessu kraftmikla, þunga og íburðarmikla ökutæki og ég upplifði eitthvað alveg nýtt á bak við stýrið: oft er ég frekar taugatrekktur í umferðinni í erlendum stórborgum – sérstaklega á dýrum bílum – en á þessari fyrirferðarmiklu bresku drossíu fylltist ég ró og ók einfaldlega á þeim hraða og með þeim hætti sem mér hentaði. Ég var jú kóngurinn.

Síðan þá leyfi ég mér stundum að láta mig dreyma um að eignast kannski minn eigin Phantom einn góðan veðurdag. Í dagdraumunum fer ég jafnvel að velta fyrir mér hvar ég ætti að koma bílnum fyrir. Nýverið settist ég að miðsvæðis í París og hef, merkilegt nokk, aðgang að bílastæði. En ég sá það strax á fyrsta degi að drauma-Rollsinn minn kæmist aldrei fyrir í stæðinu. Það er gallinn við Parísarborg. Göturnar eru þröngar og stæðin ekki hönnuð fyrir bifreiðar sem eru mikið stærri en Citroën braggi.

Ég upplifði sams konar vanda á dögunum þegar mér áskotnaðist loksins almennilegur farsími: Samsung Galaxy Z Fold 4. Það má einmitt kalla þennan síma Rollsinn á farsímamarkaðinum: hann er öflugur, sterkbyggður, massífur og í algjörum sérflokki enda hægt að opna símann eins og bók svo að hann breytist í nokkurs konar spjaldtölvu. Líkt og í Phantom-bíltúrnum hef ég uppgötvað alveg nýjar hliðar á því að nota snjallsíma og gæti varla hugsað mér að fara til baka í „venjulega“ farsíma – eini gallinn er að hann rúmast álíka illa í gallabuxnavasa og Rollsinn rúmast í frönsku bílastæði.

Stóri skjárinn á Galaxy Fold 4 er á stærð við …
Stóri skjárinn á Galaxy Fold 4 er á stærð við netta spjaldtölvu og hentar vel til að lesa rafbækur og rafræn dagblöð. Ásgeir Þórarinn Ingvarsson

Allt annars konar tæki

Ég hef lengi haft augastað á Galaxy Fold, m.a. vegna þess að mér finnst ég ekki nógu duglegur að lesa. Þegar síminn er opnaður upp á gátt er skjárinn orðinn álíka stór og á nettu lesbretti á borð við Kindle Oasis eða spjaldtölvu á borð við iPad Mini. Var það einmitt raunin að það fyrsta sem ég gerði þegar ég fékk símann í hendurnar var að skjótast í klippingu og lesa part úr bókarkafla á meðan rakarinn athafnaði sig. Líkt og ég hafði vonað þá var hægðarleikur að taka símann fram í neðanjarðarlestinni hér í París og þjóta í gegnum nokkrar blaðsíður á leiðinni á áfangastað – það eina sem þarf að varast eru vasaþjófarnir sem herja á lestarkerfi borgarinnar og gætu rennt hýru auga til tækisins. Þeim gæti þótt síminn ómótstæðileg freisting því hann er sá dýrasti á markaðinum og kostar meira en öflugasta iPhone símtækið.

En það er ekki erfitt að réttlæta verðið, því Galaxy Z Fold 4 nær að verða miklu meira en bara snjallsími, og það hvernig síminn opnast eins og bók gjörbreytir eiginleikum tækisins. Hef ég staðið mig að því að nota þennan síma allt öðruvísi, og mun meira, en gamla símann sem var af einföldu og ódýru gerðinni. Það munar um flatarmálið á skjánum og snjallpennann sem Samsung selur aukalega og hægt er að nota til að skissa minnispunkta, teikna eða merkja áhugaverðar klausur í rafbók. Stór skjárinn þýðir líka að mun auðveldara verður að skoða vefsíður á borð við Mbl.is, skima umræðuna á Facebook, eða lesa tölvupósta.

Gamla símann notaði ég varla nema ég væri tilneyddur, og greip frekar til fartölvunnar til að nota samfélagsmiðla eða horfa á myndskeið, en skjárinn á nýja símanum er svo stór og svo skarpur að ég nenni æ sjaldnar að teygja mig eftir fartölvunni. Er meira að segja ekki nokkur vandi að lesa Morgunblaðið í Mogga-appinu á þessu tæki. Samlokusímar eru greinilega framtíðin.

Búið að leysa úr hnökrunum

Það er ekki að ástæðulausu að ég var hikandi við að taka stökkið. Verðið er ekki lítill biti að kyngja ef maður er ekki viss um notagildið, og það hefur líka tekið Samsung fjórar kynslóðir að fullkomna Fold-símann. Fyrsta kynslóðin kom á markað haustið 2019 og hafa gagnrýnendur m.a. kvartað yfir því að símarnir væru ekki nægilega sterkbyggðir og að vinsæl snjallsímaforrit væru ekki hönnuð með samlokusíma í huga. Nú heyra þessi vandamál sögunni til: fjórða kynslóð Fold er sterkbyggð og massíf græja og búið að laga helstu forrit að stærðarhlutföllum stóra skjásins. (Litli skjárinn, framan á símtækinu, er góður til síns brúks og þarf t.d. ekki að opna símann upp á gátt til að svara símtölum, lesa og skrifa stutt skeyti eða fylgja leiðbeiningum á götukorti.)

Útkoman er öflugt afþreyingar- og vinnutæki sem gæti jafnvel komið í stað fartölvunnar á vinnuferðalögum. Er þó rétt að skilja fartölvuna ekki eftir ef fólk sér fram á að þurfa að vinna mikið með texta – það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir alvörulyklaborð þegar þarf að skrifa tölvupósta. Reyndar selur Samsung nett blátannarlyklaborð sem má tengja við snjallsímann, en þá mætti allt eins ferðast með fartölvu líka.

Pennan þarf að geyma í slíðri sem er áfast verndarhulstrinu …
Pennan þarf að geyma í slíðri sem er áfast verndarhulstrinu utan um símann. Eini veikleiki símans er að samanbrotinn er hann of þykkur til að rúmast með góðu móti í buxnavasa. Samsung

Þarf sína eigin bumbutösku

Eini gallinn er, sem fyrr segir, hvað símtækið er stórt. Þá er ekki hægt að geyma snjallpennann í rauf á sjálfu símtækinu (líkt og á Samsung Galaxy S22) heldur þarf að kaupa hulstur utan um símann með litlu slíðri fyrir pennann. Hulstrið gerir símann enn þykkari, og með pennann á sínum stað er tækið nærri því á við litla talstöð að stærð. Þetta mikla umfang kemur ekki að sök á veturna, enda rúmast síminn ágætlega í úlpuvasa. Þeir lesendur sem þurfa að klæðast jakkafötum alla daga, eða hafa handtösku á sér árið um kring, munu heldur ekki eiga í vandræðum með að finna góðan stað til að geyma símann. En þegar það verður aftur stuttbuxnaveður hér í París mun ég sennilega þurfa að fjárfesta í lítilli bumbutösku gagngert til þess að geyma símann.

Verður áhugavert að fylgjast með þróun samlokusíma því fleiri framleiðendur eru farnir að gefa þessari tegund síma gaum. Nú síðast var því lekið í tæknitímaritin að von sé á Google Pixel samlokusíma næsta vor, og nú þegar fást samlokusímar hjá Huawei og Xiaomi – þó aðeins á Kínamarkaði – og er Xiaomi síminn ögn þynnri en Fold 4. Eftir því sem tekst að gera þessa síma nettari, því betur munu þeir seljast og ekki erfitt að ímynda sér að innan nokkurra ára verðir örþunnir samlokusímar búnir að sölsa undir sig allstóran skerf af snjallsímamarkaðinum.

Greinin birtist upphaflega í dálkinum "Hið ljúfa líf" í ViðskiptaMogganum miðvikudaginn 30. nóvember.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »