Ofureinfaldar og undurfagrar bollakökur

mbl.is/Sunna Gautadóttir

Það er bara eitthvað við Kinder Bueno sem gerir það að verkum að það er einstaklega erfitt að hætta að slafra því í sig þegar maður byrjar. Því fannst mér tilvalið að búa til Kinder Bueno-bollakökur sem eru stútfullar af þessu ávanabindandi súkkulaði.

Þessar verðið þið að prófa. Ofureinfaldar, gómsætar, ómótstæðilegar og undurfagrar. Getur maður beðið um meira?

Bollakökur

Um það bil 12 dásemdarhnoðrar

  • 175 g mjúkt smjör
  • 3/4 bolli ljós púðursykur
  • 3 stór egg
  • 1 1/8 bolli hveiti
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 msk. Nutella
  • 2-3 msk. mjólk
  • 100 g Kinder Bueno, mulið

Hitið ofninn í 170°C og takið til múffuform. Blandið smjöri og púðursykri mjög vel saman og bætið því næst eggjum, hveiti, vanilludropum og Nutella vel saman við.

Ef deigið er of þykkt er hægt að bæta smá mjólk saman við. Blandið Kinder Bueno varlega saman við með sleif eða sleikju.

Deilið á milli múffuforma og bakið í 18-20 mínútur. Leyfið kökunum að kólna.

Krem

  • 150 g mjúkt smjör
  • 2½ bolli flórsykur
  • 100 g Kinder Bueno, mulið (plús meira til að skreyta með)
  • 1-2 msk. mjólk

Þeytið smjörið í 3-4 mínútur og blandið því næst flórsykrinum saman við. Blandið mjólkinni saman við þar til þykktin á kreminu er ásættanleg.

Blandið Kinder Bueno varlega saman við með sleif eða sleikju og skreytið kökurnar.

Þessar eiga eftir að hverfa fljótt!

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert