Geggjaðar núðlur sem koma á óvart

Kristinn Magnússon

Þessar núðlur koma virkilega á óvart, bragðmikill og ferskur réttur sem bragðast vel og er jafnframt afar hollur. Fyrir þá sem vilja ekki rækjur er hægt að nota kjúklingabringur sem eru kryddaðar á sama hátt og rækjurnar.

Það er María Gomez á paz.is sem á heiðurinn af þessari uppskrift. 

Kúrbítsnúðlur með risarækjum og avókadópestói

Fyrir 4

 • 5-6 stk. kúrbítur
 • 1 stk. avókadó
 • 1 bolli ferskt basil
 • ¼ bolli pistasíuhnetur, ósaltar og skellausar
 • 2 msk sítrónusafi
 • ¼ tsk pipar
 • ¼ bolli ólífuolía og 2 msk aukalega til steikingar
 • 3 hvítlauksrif marin
 • 350 g risarækjur eða tígrisrækjur, hráar
 • 1 rauður belgpipar ef vill
 • 1-2 tsk Old Bay seasoning (fæst í Fjarðarkaupum og Hagkaupum)
 • salt

Aðferð

 1. Byrjið á að þrífa kúrbítinn og næst er að ydda hann í þartilgerðum skrælara sem er eins og yddari og gerir núðlur (fæst í öllum heimilisvöruverslunum og Fjarðarkaupum). Hafið hýðið á.
 2. Saltið létt yfir núðlurnar og leyfið þeim að liggja í sigti með stykki eða klút undir næstu 20-30 mínúturnar meðan rækjur og pestó er gert tilbúið.
 3. Næst er að byrja á pestóinu. Setjið avókadó, basil, pistasíuhnetur, sítrónusafa, salt, pipar og olíu í blandara og blandið vel þar til úr verður fallega grænt pestó. Smakkið til og setjið meira salt og sítrónusafa ef þið viljið meira bragð og ferskleika. Leggið til hliðar.
 4. Næst er að þurrka aðeins rækjurnar með því að leggja þær á eldhúsbréf.
 5. Hitið svo 1 msk ólífuolíu á pönnu og setjið 3 marin hvítlauksrif út á og rauðan belgpipar smátt skorinn (sleppið ef þið viljið ekki hafa það sterkt).
 6. Hrærið stöðugt í hvítlauknum í 30 sekúndur og passið að hann brenni ekki eða brúnist.
 7. Bætið næst rækjunum á pönnuna og kryddið með Old Bay, leyfið þeim að steikjast í 3-4 mínútur þar til þær verða fagurbleikar.
 8. Takið rækjurnar af pönnunni og setjið til hliðar í stóra skál.
 9. Bætið nú 1 msk af ólífuolíu út á pönnuna og blandið saman við gumsið eftir rækjurnar.
 10. Þurrkið vel allan umframvökva af núðlunum og steikið á pönnunni í 3-5 mínútur.
 11. Slökkvið undir og setjið núðlurnar út á rækjurnar í stóru skálinni og bætið pestói við og hrærið allt vel saman.
mbl.is