„Krispí" kjúklingur með hunangs-sinnepsgljáa

mbl.is/María Gomez

Ef þetta er ekki uppskrift sem fær hjartað til að slá hraðar þá veit ég ekki hvað. Hér erum við að tala um kjúklingabringur sem búið er að hjúpa með valhnetum og alls kyns góðgæti svo þær verða stökkar og ómótstæðilegar. 

Það er María Gomez á paz.is sem á heiðurinn af þessari stórskemmtilegur uppskrift sem nauðsynlegt er að prófa að minnsta kosti einu sinni í þessari viku. 

Matarblogg Maríu er hægt að nálgast HÉR.

mbl.is/María Gomez

Geggjaðar bringur með stökkum valhnetuhjúp og hunangssinnepsgljáa

 • 4 kjúklingabringur
 • 1/3 bolli (80 ml) ólífuolía og svo meira til steikingar
 • 1/4 bolli (60 gr) hunangs Dijon-sinnep (athugið ekki hefðbundna Dijon heldur með hunangi. Fæst í stærri matvöruverslunum)
 • 1/4 bolli (60 ml) tilbúið kjúklingasoð (1 kjúklingateningur í 500 ml vatn, notið svo 60 ml af því í mareninguna)
 • 3 marin hvítlauksrif
 • 1 tsk. þurrkað timian
 • 1 1/2 bolli (190 g) malaðar valhnetur
 • 1 bolli (125 g) hveiti eða heilhveiti
 • 2 tsk. salt
 • 1/2 tsk. svartur pipar
 • Val: steinselja, ferskt timian eða þær kryddjurtir sem þið elskið til skreytingar

Hunangs-sinnepsgljái: 

 • 3 msk. hunangs Dijon-sinnep
 • 1/3 bolli (80g) hunang

Aðferð:

 1. Setjið ólífuolíu, sinnep, kjúklingasoð, hvítlauk og þurkkað tímian í stóra skál og hrærið öllu vel saman.
 2. Setjið bringurnar ofan í og sökkvið þeim í mareninguna svo þær marinerist allar vel.
 3. Hafið í ísskáp í minnst 4 klst., lengur því betra.
 4. Þegar steikja á kjúklinginn, malið þá valhnetur í matvinnsluvél eða blandara. Passið að gera þær samt ekki að dufti heldur svona litlum kögglum.
 5. Blandið svo saman valhnetunum, hveitinu, salti og pipar og hrærið vel saman á grunnum disk.
 6. Takið bringurnar og hristið örlítið aukamareninguna af og veltið upp úr valhnetublöndunni báðum megin. Passið að þekja þær vel í valhnetublöndunni.
 7. Hitið nú ofninn í 210 C° á blæstri.
 8. Á meðan ofninn hitnar, hitið þá ólífuolíu á pönnu við miðlungshita (helst pönnu sem má fara inn í ofn).
 9. Setjið bringurnar á pönnuna og steikjið í 2 mínútur á hvorri hlið (gott að stilla klukku).
 10. Setjið svo pönnuna inn í ofninn og eldið í 20-25 mínútur. (Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara í ofn færið þá yfir í eldfast ílát).
 11. Hrærið nú saman í sinnepsgljáann og hellið yfir allan kjúklinginn þegar hann er tilbúinn úr ofninum.
mbl.is/María Gomez
mbl.is