Vandræðalega gott vegan

Kristinn Magnússon
Það eru fáir lunknari í eldhúsinu en Aníta Ösp Ingólfsdóttir, yfirmatreiðslumaður á Ríó Reykjavík, en hér galdrar hún fram ómótstæðilega vegan-rétti fyrir lesendur eins og henni einni er lagið. Vegan er málið og á miðvikudögum verður boðið upp á auka vegan-valkosti sem ættu að gleðja sælkera þessa lands.
Blómkálssteik sem engan svíkur
  • 2 hausar blómkál (aðeins miðjan á þeim fer í steikina, restina er gott að nýta í kúskús eða mauk)
  • 1 dl sítrónuolía
  • grænmetisrub – eftir þörfum.

Blómkálið skorið í u.þ.b. 1½ cm þykkar sneiðar úr miðjum hausnum. Sítrónuolíu nuddað á það og grænmetisrubi stráð yfir. Blómkálinu er síðan vakúmpakkað og eldað í sous vide á 72°C í 2 klst. Síðast er það steikt á sjóðheitri pönnu til að fá góða og fallega húð utan á það.

(Ekki er nauðsynlegt að nota sous vide við blómkálið, einnig má steikja það beint á pönnu og klára í ofni á 180°C í um það bil 10 mínútur.)

Grænmetisrub

  • 3 msk þurrkað óreganó
  • 2 msk þurrkuð steinselja
  • 2 msk þurrkað timían
  • 2 msk flögusalt
  • 1 msk svartur pipar grófmalaður
  • 1 msk reykt paprikuduft
  • 1 msk chiliflögur

Öllu blandað saman.

Sætkartöflu- og appelsínumús

  • 1 stór sæt kartafla
  • 4 appelsínur
  • 20 g smjörlíki
  • salt

Kartaflan flysjuð og skorin í litla bita, safinn er kreistur úr appelsínunum og settur í pott með sætu kartöflunni, það má bæta smá vatni í pottinn svo að vökvinn fljóti yfir. Soðið þar til kartöflurnar eru orðnar mjög mjúkar. Þá eru þær settar í blandara með helmingnum af safanum sem eftir er og klípu af smjörlíki. Blandað þar til slétt áferð fæst. Smakkað til með salti.

Blómkálskúskús

  • ½ haus blómkál
  • ½ pakki graslaukur
  • 1 sítróna
  • 8 msk stökkt kínóa
  • salt

Blómkálið annaðhvort rifið niður á grófu rifjárni eða skorið mjög smátt, graslaukurinn einnig skorinn smátt. Þessu er blandað saman ásamt stökka kínóanu, smátt rifnum berkinum af sítrónunni sem og safanum. Smakkað til með salti

Spicy tómatsósa

  • 300 g tómatsósa
  • 1 msk chiliflögur
  • 1 tsk sriracha-chilisósa
  • 1 stk skallottlaukur
  • 3 msk kóríander
  • salt

Laukur og kóríander skorinn smátt. Næst er öllu blandað saman og hrært vel, gott er að leyfa sósunni að standa í u.þ.b. tvo tíma áður en hún er notuð.

Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert