Bleikjusalatið sem kemur þér í gegnum vikuna

mbl.is/María Gomez

Þetta salat er það sem við myndum skilgreina sem fullkomna byrjun á viku sem er mörgum erfið. Ekki örvænta því salatið er bæði snargrennandi og ótrúlega bragðgott. Svo gott reyndar að þið fáið þá auka orku sem þið þurfið til að komast í gegnum þessa síðustu daga janúar.

Salatið er pakkað af Omega-3 fitusýrum og annarri hollri fitu. Þar mætist sæta á móti söltu, en sæt melónan og sólblómafræin eru fullkomið mótvægi við saltar ólífurnar, fetaostinn og fiskinn. Þið bara verðið að prófa. Höfundur uppskriftar er hin eina sanna María Gomez en matarbloggið hennar heitir einmitt Paz.is

mbl.is/María Gomez

Bleikjusalatið sem kemur þér í gegnum vikuna
fyrir 2

  • 1/2-1 flak afgangsbleikja þ.e. elduð og kæld
  • 1 box Piccolotómatar
  • Grænar ólífur (magn eftir smekk)
  • 1/2 bolli sólblómafræ
  • 1 tsk. tamarisósa
  • 2 tsk. hunang
  • Hálf gul melóna (hunangsmelóna)
  • 1 poki klettasalat
  • 1 dl fetaostur
  • Dressing:
  • 1 dl grísk jógúrt
  • 1/2 dl Sweet chili-sósa

Aðferð: 

  1. Byrjið á að rista fræin á pönnu með tamarísósunni og hunanginu.
  2. Setjið í frysti og kælið.
  3. Skerið næst melónuna í bolta ef þið eigið þannig skeið. Annars bara í bita.
  4. Raðið klettasalatinu á disk.
  5. Bætið svo tómötum, melónu, ólífum og fetaostinum út á.
  6. Stráið fræjunum svo yfir að lokum og gerið dressinguna.
  7. Jógúrt og Sweet chili-sósu er hrært saman og má þess vegna salta ögn.
  8. Berið svo dressinguna fram með salatinu.
mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert