Ostafylltar kjúklingabringur í rjómalegi

mbl.is/Linda Ben

Haldið ykkur fast því þessi uppskrift er nákvæmlega það sem við þurfum á degi sem þessum. Það er okkar heittelskaða Linda Ben. sem á þessa uppskrift og hún er svo girnileg að meira að segja flensufólkið er farið að brosa af tilhlökkun.

Linda segir réttinn ekta haustmat af einföldustu og bestu sort. „Bæði kjúklingurinn og kartöflurnar taka u.þ.b. 40 mín í ofninum, kartöflurnar þó örlítið styttri tíma mögulega, þannig að það er mjög sniðugt að smella kjúklingnum fyrst inn í ofn og kartöflunum svo í beinu framhaldi.“

Ostafylltar kjúklingabringur í rjómalegi

  • 4 kjúklingabringur
  • 1 kryddostur með pipar frá Örnu
  • rósmarín og timían
  • 8 sneiðar hráskinka
  • 2-3 dl rjómi
  • 1 tsk kjúklingakraftur
  • ferskt rósmarín

Aðferð:

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 200ºC.
  2. Stingið hníf inn í endann á þykkasta hluta bringnanna og myndið vasa fyrir ostsneiðar, eins djúpar og hægt er án þess að gera gat.
  3. Skerið ostinn í u.þ.b. 0,5 cm þykkar sneiðar og setjið inn í „vasann“ á bringunum. Kryddið með rósmaríni og timían og vefjið svo tvær skinkusneiðar utan um hverja bringu. Raðið í eldfast mót og bakið inni í ofni í 20 mín.
  4. Þegar 20 mín eru liðnar, hellið þá rjómanum út á mótið og blandið kjúklingakrafti saman við. Bakið áfram í 20 mín.
  5. Takið út úr ofninum og kryddið (og skreytið) með fersku rósmaríni.

Kartöflusmælki

  • 400 g litlar kartöflur með hýði
  • 2-3 msk ólífuolía
  • salt og pipar
  • rósmarínkrydd
  • timíankrydd

Aðferð:

  1. Hreinsið kartöflurnar vel undir köldu vatni og nuddið öll óhreinindi af. Skerið þær í fjóra hluta hverja. Raðið í eldfast mót.
  2. Hellið olíu yfir og kryddið eftir smekk, blandið öllu vel saman.
  3. Bakið í ofni í 30-40 mín.
mbl.is/Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert