Epla- og kanilpæ sem hittir alltaf í mark

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér erum við komin með hina fullkomnu „pæ" eða böku eins og þær kallast víst þó það passi ekki jafn vel. Því köllum við þær bara pæ og skömmumst okkar ekki neitt.

Það er meistari Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari snilld sem flokkast klárlega sem skyldubakstur!

„Það er alltaf notalegt að útbúa pæ í eldföstu móti til að njóta í kaffitímanum. Ég nota mikið sama grunn í slíkt sem eru jöfn hlutföll af smjöri, sykri og hveiti. Ég set síðan ýmist púðursykur eða venjulegan sykur, eða bland af báðum tegundum. Grunnurinn er síðan notaður í botninn og stundum að hluta til ofan á góðgætið sem fer yfir botninn."

Epla- og kanilpæ

 • 100 g hveiti
 • 100 g púðursykur
 • 100 g smjör við stofuhita
 • 2 jonagold epli
 • 1 krukka St. Dalfour epla- og kanilsulta (284 g)
 • 150 g mulið marsípan
 • 40 g pekanhnetur (saxaðar)

Aðferð:

 1. Hitið ofinn í 180°C.
 2. Blandið hveiti, púðursykri og smjöri saman í hrærivélinni.
 3. Smyrjið eldfast mót (um 25 cm í þvermál) með smjöri og þjappið deigblöndunni í botninn og vel upp á kantana.
 4. Hellið úr sultukrukkunni yfir og dreifið úr sultunni yfir botninn.
 5. Flysjið næst eplin og kjarnhreinsið. Skerið í þunnar sneiðar og raðið þétt yfir allt mótið.
 6. Stráið söxuðum pekanhnetum og muldu marsípani yfir eplin að lokum.
 7. Bakið í um 35 mínútur, fyrst í 20 mínútur með álpappír yfir og síðan í um 15 mínútur til viðbótar (þetta gert til þess að marsípanið brenni ekki).
 8. Gott er að bera volgt pæ fram með þeyttum rjóma eða ís.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is