Nýtt kaffi frá Gráa kettinum

Nú í vikunni kom á almennan markað hið rómaða veitingahúsakaffi Gráa kattarins. Kaffið inniheldur fimm sérvaldar tegundir arabíka bauna sem eru brenndar að frönskum hætti. Útkoman er sérlega ljúffengt kaffi og ekki skemmir fyrir að ilmurinn er indæll.  

Grái kötturinn er kaffihús á Hverfisgötunni og hefur ekki farið varhluta af áhrifum þeirra takmarkana sem lífi okkar á Íslandi er sett þessi misserin. Því var ákveðið að bregðast við ástandinu með því að koma kaffinu sem notað er á Gráa kettinum í verslanir, en í gegnum árin hafa viðskiptavinir kaffihússins ótal oft óskað eftir því. Það má segja að ef þú kemst ekki á Köttinn þá kemur Kötturinn til þín.

Umbúðirnar hafa strax vakið athygli. Það er María Elínardóttir myndlistarkona, sem vann myndirnar á kaffipokana og Arndís Lilja hönnuður sá um uppsetningu og hönnun. Þess má geta að konan sem tók tvær af myndunum þremur á pökkunum var Elín Kaaber, langamma Maríu.

Fyrst um sinn er eingöngu um malað kaffi um að ræða, í 400 gr pokum, en fljótlega verða kaffibaunir einnig í hillum verslana.

Kaffið fæst í Heimkaup, Melabúðinni og í Hagkaup Skeifu, Smáralind, Kringlu og Garðabæ. 

mbl.is