Monkey’s hefur opnað í Hjartagarðinum

Þau gleðitíðindi berast að búið sé að opna Monkeys í Hjartagarðinum en hann er í húsnæði gamla Skelfiskmarkaðarins sem er eitt glæsilegasta veitingarými landsins.

Óli Már Ólason, framkvæmdastjóri staðarins segir að framkvæmdir hafi staðið yfir síðan í mars og því sé opnunin langþráð. „Við höfum fengið frábærar viðtökur og erum mjög spenntir fyrir framtíðinni,“ segir Óli en staðurinn er smáréttastaður með mikið úrval framandi rétta sem eru undir áhrifum frá Perú og Japan. „Mikil áhersla verður á gott úrval léttvína í glasatali og þá sér í lagi freyðandi vín frá öllum heimshornum ásamt frábærum kokteilum.

Nikkei er heitið á matargerðinni sem mun ráða ríkjum á staðnum. Hún á uppruna sinn að rekja til seinni hluta 19. aldar þegar japanskir innflytjendur hófu að setjast að í Perú í töluverðum mæli. Þar blönduðust aldagamlar matreiðsluaðferðir frá Japan saman við fjölbreytta matarkistu Perú. Nikkei matreiðsla sameinar það besta úr hvorri matargerð, svo sem virðingu fyrir hráefninu og samsetningu framandi bragðtegunda. Þannig voru japanskir réttir tengdir bragði og eldunaraðferðum frumbyggja í Perú á aðdáunarverðan hátt. Þessi blanda felur í sér það besta úr glæsilegri og fíngerðri  matarmenningu Japana ásamt afburða fersku hráefni blandað kryddtöfrum frá Perú.

Staðnum stýra þeir Óli Már, Gunnar Rafn Heiðarsson veitingastjóri, Snorri Sigfússon yfirmatreiðslumeistari og Martyn Lourenco yfirkokteilbarþjónn. Allir hafa þeir áratuga reynslu í því að skapa framúrskarandi upplifun gesta sinna.

Monkeys er staðsettur við Klapparstíg 28-30 í Hjartagarðinum. Gengið er inn í hlýlegt, litríkt og spennandi umhverfi þar sem gestir geta notið framandi matar.

mbl.is