Segja um skrípaleik að ræða

Slökkviliðsmenn og fulltrúar launanefndar sveitarfélaga
Slökkviliðsmenn og fulltrúar launanefndar sveitarfélaga mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talsmenn Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna (LSS) segja aðgerðir Flugfélags Íslands varðandi flutning á áætlunarflugi frá Akureyri til Húsavíkur skrípaleik. LSS hvetur forystumenn annarra stéttarfélaga til að koma í veg fyrir verkfallsbrot sinna félagsmanna.

Þriðji hluti boðaðra verkfallsaðgerða Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófst klukkan 08:00 í morgun. Í þessum þriðja hluta aðgerðanna bætist ótímabundið yfirvinnubann við, samkvæmt tilkynningu frá LSS.

„LSS harmar að enn þurfi að koma til aðgerða en telur ábyrgðina liggja hjá Launanefnd sveitarfélaganna, LN. Kjarasamningar LSS við LN hafa verið lausir frá 31. ágúst 2009. Samningafundur stóð frá klukkan 12 á hádegi í gær til tæplega sex í morgun eða í átján klukkustundir. Sáralítið bar í milli þegar upp úr slitnaði.

Skrípaleikur vegna Húsavíkurflugs

Vegna verkfallsaðgerða LSS hyggst Flugfélag Íslands færa áætlunarflug sitt frá Akureyri til Húsavíkur. Að mati LSS grípur Flugfélag Íslands gagngert til þessarar ráðstöfunar til þess að komast hjá áhrifum löglega boðaðra verkfallsaðgerða LSS. Það er brot á lögum nr. 80/1938, gr. 14 og 18.

ISAVIA lét í gær flytja gamlan slökkvibíl frá Bakkaflugvelli í Austur-Landeyjum til Aðaldalsflugvallar. Starfsmönnum sem ætlað er að sinna öryggisgæslu á Aðaldalsflugvelli, var fyrir aðeins fáum klukkustundum kennd notkun slökkvibílsins, þessa mikilvæga öryggistækis.

LSS metur það svo að með þessu hafi verið slegið verulega af öryggiskröfum sem alla jafnan eru gerðar þegar farþegaflug er annars vegar. Þá telur LSS það skýrt verkfallsbrot að starfsmenn annarra stéttarfélaga gangi í störf félagsmanna LSS sem eru í löglega boðuðum verkfallsaðgerðum. LSS hvetur forystumenn viðkomandi stéttarfélaga til að koma í veg fyrir umrædd verkfallsbrot," segir orðrétt í tilkynningu frá LSS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert