Þetta eru bækurnar sem þú mátt ekki missa af

Ef þú þarft pásu frá lífinu þá eru þessar bækur …
Ef þú þarft pásu frá lífinu þá eru þessar bækur eitthvað sem þú ættir að gefa gaum. Ljósmynd/Unsplash

Eitt það besta við jólin er að fá skemmtilegar bækur í jólagjöf sem hægt er að liggja í öll jólin. Það getur þó alltaf gerst að fólk fái engar bækur og þá er ágætt að vera búin/n að undirbúa sig aðeins. Ef þú elskar að lesa bækur sem hreyfa við þér þá eru þetta bækur sem þú ættir að kaupa þér. 

Kokkáll eftir Dóra DNA

Um er að ræða fyrstu skáldsögu Halldórs Laxness Halldórssonar sem fjallar um Örn sem er sætur og vinnur á auglýsingastofu. Hann býður kærustu sinni henni Hrafnhildi í helgarferð til Ameríku til að fagna óvænt batnandi skuldastöðu sinni. Í ferðinni gerist ýmislegt óvænt en það sem er skemmtilegt við þessa bók er hvað hún er raunsæ. Þar er ekkert dregið undan og er fullt af mjög óþægilegum lýsingum í bókinni sem geta komið mestu teprunum úr andlegu jafnvægi. Ef þig langar að lesa eitthvað krassandi og skemmtilegt þá er þetta bókin fyrir þig.

Kokkáll eftir Dóra DNA.
Kokkáll eftir Dóra DNA.

Tilfinningabyltingin

eftir Auði Jónsdóttur

Ef þú hefur gengið í gegnum hjónaskilnað eða ert að íhuga það þá er Tilfinningabyltingin bók sem þú munt tengja við. Hún fjallar um þanin viðbrögð, hvernig manneskjan verður aftur að unglingi við skilnað og hvað lífið getur verið stjarnfræðilega furðulegt í öllum sínum hryllilega glundroða. Auður hefur einstakt lag á að orða hlutina á kómískan hátt þótt þeir geti að sama skapi verið afar sorglegir. Ekki byrja að lesa þessa bók nema hafa marga klukkutíma á lausu því það er erfitt að leggja hana frá sér.

Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur.
Tilfinningabyltingin eftir Auði Jónsdóttur.

Bréf til mömmu eftir Mikael Torfason

Bækur Mikaels hafa fengið mikið lof enda dregur hann ekkert undan og lætur allt flakka. Í þessari bók skrifar hann móður sinni, Huldu Fríðu Berndsen, bréf og gerir upp fortíð þeirra. Hulda Fríða var í Vottum Jehóva og þegar hún skildi við föður Mikaels, Torfa Geirmundsson rakara, flutti sonurinn til pabba síns. Mikael upplifði mikla höfnunartilfinningu og hafa samskipti mæðginanna verið erfið og krumpuð á köflum. Ef þig langar að hlæja og gráta á sama tíma er þetta bókin sem hreyfir við tilfinningunum.

Bréf til mömmu eftir Mikael Torfason.
Bréf til mömmu eftir Mikael Torfason.

Óstýriláta mamma mín og ég eftir

Sæunni Kjartansdóttur

Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir segir sögu móður sinnar sem var virkur alkóhólisti í þessari mögnuðu bók. Sæunn upplifði mikla höfnun sem barn sem fylgdi henni fram á fullorðinsár. Í bókinni segir Sæunn frá því á heiðarlegan hátt hvað gekk á á heimilinu og hvernig það skaðaði hana sem fullorðna manneskju. Ef þú ert barn alkóhólista eða þekkir einhvern sem glímir við sjúkdóminn þá er þetta bók fyrir þig. Alkar eiga það til að haga sér á keimlíkan hátt og oftar en ekki er alkinn bara að hugsa um eigin tilveru og pælir lítið í rest.

Óstýriláta mamma mín og ég eftir Sæunni Kjartansdóttur.
Óstýriláta mamma mín og ég eftir Sæunni Kjartansdóttur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »