„Kraftmikið fólk heldur manni á tánum“

Þuríður Björg Guðnadóttir er framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Nova.
Þuríður Björg Guðnadóttir er framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Nova.

Þuríður Björg Guðnadóttir hóf fyrst störf hjá Nova 18 ára gömul en þar starfar hún enn, nú sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustu. Hún situr í stjórn Lyfju og segir að vinnueðli hennar komi frá foreldrunum. Sem eru harðduglegt fólk og miklar fyrirmyndir. Þuríður þykir frábær í mannlegum samskipum og segir að þessa dagana sé hún að æfa sig í að hlusta á annað fólk. 

Hvað getur þú sagt mér um menntunina þína?

„Eftir að ég kláraði stúdentspróf þá skellti ég mér fyrst í einkaþjálfaranám en ég hef mikinn áhuga á líkamanum okkar, heilsu og hreyfingu. Þegar ég fór svo að velja mér háskólanám þá heillaðist ég sérstaklega af námi sem tengdist fyrirtækjarekstri. Ég skoðaði því bæði viðskiptafræði, hagfræði og rekstrarverkfræði en valdi rekstrarverkfræði þar sem ég taldi námið hafa opna möguleika bæði varðandi framhaldsnám og atvinnu.
Í náminu lærði ég fyrst og fremst þverfaglega hugsun og vera lausnamiðuð í þeim verkefnum sem maður mætir í leik og starfi.

Ég fór svo í markþjálfunarnám hjá Háskólanum í Reykjavík en ég valdi það til að styrkja mig í virkri hlustun og spurningatækni sem hefur nýst mér mjög vel.“

Hvernig lýsir þú vinnu þinni fyrir Nova?

„Ég er heppin að vera í vinnu sem ég hlakka til að mæta í á hverjum degi. Verkefnin eru fjölbreytt, krefjandi en svakalega skemmtileg. Þetta snýst í raun allt um að búa til besta liðið; lið sem langar að ná árangri og við vinnum saman að því alla daga.“

Hvað heillar þig við vinnustaðinn?

„Gleðin klárlega!

Hjá Nova starfar kraftmikill hópur sem leggur sig fram alla daga við að bæta þjónustu við viðskiptavini og stækka dansgólfið okkar. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtækið mótist af gleði, samheldni og vilja til að ná árangri.“

Nú hef ég heyrt að þú sért góð í samskiptum. Hvað getur þú sagt mér um það?

„Ég tel að góð og vönduð samskipti séu lykilatriði til að líða vel og ná árangri. Þetta er ekki alltaf auðvelt en ég hef vandað mig við að tileinka mér að vera heiðarleg og opin. Það skiptir afar miklu máli að geta rætt saman, sagt sínar skoðanir og tala ekki undir rós.

Þetta hef ég lært í starfi mínu hjá Nova og hjálpar mér klárlega á öðrum vígstöðum einnig.

Mér finnst líka mikilvægt að eyða ekki tíma og orku í að tala um aðra, það sem ég hef að segja vil ég geta sagt beint við fólk.

En annars þá er ég sjálf að æfa mig í að hlusta meira og tala minna en ég á það til að tala of mikið.“

Hvaðan færðu vinnueðli þitt?

„Ég er alin upp af duglegum foreldrum sem hafa alltaf lagt mikla áherslu á að maður þurfi að leggja sig fram í því sem maður tekur sér fyrir hendur. Það er ekkert gefins og maður þarf að vera tilbúinn að leggja hart að sér.

Ég hef líka haft frábærar fyrirmyndir innan Nova og dáðst að krafti, seiglu, útsjónasemi hjá þeim frá upphafi. Árangursmenning innan Nova er drifkrafturinn í að vilja gera betur í dag en í gær, það er líka mikilvægt að læra af mistökum og halda áfram.“

Hver eru áhugmál þín?

„Ég er algjör dellukelling og fæ æði sem endast mislengi. Ég er mikil keppnismanneskja og fer fljótt í að breyta áhugamálum í keppnir þannig að það má segja að það sé ákveðið áhugamál hjá mér.

En yfir sumartímann þá erum við fjölskyldan mjög dugleg að ferðast um landið, við elskum útilegur á fallega landinu okkar. Nú þegar börnin eru að stækka þá er auðveldara að taka þau með í göngur og ævintýri.

Þau eru líka öll komin á snjóbretti en ég er sjálf að prófa mig áfram í því sporti en þyki ekki sérstaklega fær. Annars er fjölskylda mín mikið hestafólk og sinnti ég því vel áður en ég eignaðist börnin, nú langar mig að taka það upp á nýjan leik og þá með börnin mín með í för.“

Yfir sumartímann er fjölskyldan dugleg að ferðast saman um landið.
Yfir sumartímann er fjölskyldan dugleg að ferðast saman um landið.

Áttu fjölskyldu?

„Ég á dásamlega fjölskyldu en ég er gift Darra Erni en við höfum verið kærustupar í tæp 16 ár. Saman eigum við þrjú börn, elstur Hilmar Örn 10 ára í miðjunni einkadóttirin Þórunn Ýr, 7 ára og yngstur er Vignir Örn 4 ára. Við hjónin erum ótrúlega lánsöm að eiga líka frábær systkini sem eiga börn á svipuðum aldri. Við búum meira að segja öll í Garðabænum og samgangurinn því virkilega mikill sem er bæði skemmtilegt og hjálplegt.“

Hversu miklu máli skiptir fyrir þig að vera með góða vinnu?

„Vinnan skiptir mig mjög miklu máli og er stór partur af lífinu mínu. Ég tel gríðarlega mikilvægt að vera ánægð í starfinu og vera ánægð og þakklát með lífið almennt.

Ég er svakalega lánsöm að starfa með kláru, duglegu og kraftmiklu fólki sem heldur manni á tánum á hverjum degi. Það er líka mikilvægt fyrir mig að verkefnin séu krefjandi en í senn gefandi.“

Hver eru framtíðarplön þín?

„Númer eitt tvö og þrjú eru plönin mín að hugsa vel um mig, að mér líði vel og ég sé að gera  það sem mér finnst skemmtilegt á hverjum tíma!

Ég er rosalega ánægð með það sem ég er að gera núna, nýt mín í botn bæði hjá Nova og í stjórnarsetu Lyfju.

Framtíðarplönin mín eru að halda áfram læra, þroskast og sækja tækifæri.

Ég tel að til að vera hamingjusamur í starfi verður maður að vera hamingjusamur í lífinu almennt.“

Eru málefni samfélagsins þér hugleikin?

„Ég er ekki mjög pólitísk en mér en mér finnst að við ættum að geta gert betur í að minnka misskiptingu í samfélaginu og hlúa betur að þeim sem minnst mega sín. En almennt þá fylgist ég með málum líðandi stundar án þess að ég liggi yfir öllum fréttamiðlum.“

Ef þú gætir breytt einhverju í landinu, hvað væri það helst?

„Þar sem ég er núna stödd á fótboltamóti í Vestmanneyjum þá eru íþróttir og tómstundir barna ofarlega í huga. Það þarf að tekjutengja gjöld af íþrótta- og tómstundaiðkun og koma upp kerfi líkt og tíðkast víða í Evrópu sem gerir öllum börnum og unglingum kleift að taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi.“

Hvað er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Besta ráð sem ég hef fengið er frá mömmu minni en hún hefur lagt áherslu á að vera ég sjálf og treysta mér, skoðunum mínum og standa með mér. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að ef fíflunum er farið að fjölga í kringum þig þarftu líklega að skoða eitthvað hjá sjálfum þér. Mér finnst þetta gott jafnvægi.“

En það versta?

„Þegar ég var unglingur þá var manni sagt að álit annarra skipti öllu máli og maður lagði sig fram við að láta fólki líka við sig, breytti jafnvel hegðun og skoðunum til að falla í hópinn.

Í dag er ég þakklát að vera ekki í vinsældarkeppni. Ég vil frekar eiga fáa góða vini en marga sem ég get ekki treyst.“

Hvaða persónueinkenni heilla þig mest?

„Ég hrífst af skellibjöllum, þessari jákvæðu týpu sem hefur gaman af lífinu.“

Hvað reynir þú að gera daglega?

„Mér finnst mikilvægt að hreyfa mig eitthvað á hverjum degi, hvort sem það er létt gönguferð eða kraftmikil æfing. Ég finn að ég á mesta orku yfir daginn þegar ég byrja daginn á hreyfingu.“

mbl.is