Bryndís Gyða kom víða við en fann sína hillu í lögfræði

Bryndís Gyða Michelsen er héraðsdómslögmaður.
Bryndís Gyða Michelsen er héraðsdómslögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Bryndís Gyða Michelsen héraðsdómslögmaður útskrifaðist úr lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík í fyrra en í skólanum hlaut hún viðurkenningar fyrir námsárangur. Bryndís Gyða segir lögfræðina vera skapandi fag sem snýr að samfélaginu.

Eftir að Bryndís Gyða eignaðist frumburðinn sinn 22 ára gömul fannst henni kominn tími til ákveða sig hvað hún ætlaði að verða. Lögfræði varð að lokum fyrir valinu en fyrir það hafði hún komið víða við. 

„Ég hafði verið óákveðin fram að þeim tíma. Byrjaði í menntaskóla en hætti og fór í snyrtifræði og svo förðunarfræði sem ég starfaði við í nokkur ár samhliða því að klára menntaskóla. Þá kom ég einnig að fyrirtækjarekstri þar sem ég stofnaði vefmiðilinn Hún.is ásamt fleirum á sínum tíma og vann að uppbyggingu miðilsins þar til við seldum vefinn. Eftir á að hyggja held ég að þessi reynsla mín og þá að þora að taka skrefið og standa í atvinnurekstri þetta ung hafi reynst mér mjög dýrmæt en einnig opnað augu mín fyrir lögfræðinni, enda tengist hún svo til öllu í okkar daglega lífi með einhverjum hætti. Það var þá sem ég ákveð að sækja um í lögfræði en ég er svo heppin að ég hef alltaf átt gott með bóklegt nám.

Ég fann fljótt að lögfræðin væri mín rétta hilla og lagði mikinn metnað í námið sem skilaði sér heldur betur enda dúxaði ég á BA-prófinu og hlaut skólastyrk bæði eftir fyrstu þrjú árin í BA-náminu sem og í meistaranáminu sem er almennt tveggja ára nám.

Eftir að ég útskrifaðist fór ég fljótlega á námskeið til öflunar málflutningsréttinda, sem allir lögfræðingar sem ætla sér að verða lögmenn þurfa að þreyta prófraun í. Ég náði þeim prófum og er nú lögmaður með réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi,“ segir Bryndís. 

Auk lögfræði kom til greina að læra læknisfræði eða sálfræði. Lögfræðin varð hins vegar fyrir valinu vegna þess hversu mikla möguleika fagið býður upp á og segir Bryndís námið mjög praktískt. 

Bryndís tók ákvörðun um að læra lögfræði þegar hún varð …
Bryndís tók ákvörðun um að læra lögfræði þegar hún varð móðir. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það sem heillaði við lögfræðina?

„Mér finnst lögfræðin vera skapandi og lifandi fag sem er praktísk fyrir svo margra hluta sakir. Lögfræðin snýr að mörgu leyti að mannlegri háttsemi og lögin snerta allt í samfélagi manna og það heillar mig.“

Hvar starfar þú í dag og við hvað?

„Ég starfa í dag sem lögmaður á lögmannsstofunni Bótarétti og Atlas lögmönnum. Til Bótaréttar leita þeir sem vilja kanna hvort þeir eigi rétt til bóta eftir að hafa lent í slysi en mikilvægt er að fólk leiti til lögmanns sem allra fyrst eftir slys en mikilvægt er að tilkynna slys sem allra fyrst svo bótaréttur fari ekki forgörðum. Við sjáum það því miður of oft að fólk hefur beðið of lengi með að leita sér aðstoðar lögmanns vegna tjóns og þar með tapað dýrmætum réttindum. Það er því mikilvægt að fólk sé upplýst um hvað felst í bótum, það er hlutverk bóta er að bæta fyrir það sem viðkomandi hefur misst eða orðið af. Að baki Bótarétti standa lögmenn sem búa yfir langri og mikilli reynslu á sviði skaðabótaréttar.

Ég fæst því að meginstefnu til við skaðabótamál ásamt því að sinna öðrum fjölbreyttum verkefnum Atlas lögmanna sem veita alhliða lögfræðiþjónustu á hinum ýmsum sviðum lögfræðinnar,“ segir Bryndís og segir fyrsta árið eftir útskrift hafa verið lærdómsríkt, krefjandi en umfram allt skemmtilegt. 

Hvað telur þú að skipti máli ef konur ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Ég vildi að ég gæti svarað þessari spurningu með þeim hætti að segja að metnaður og vinnusemi væri lykillinn. Það eru hins vegar ýmsar breytur sem hafa áhrif á það hvort konur ná langt á vinnumarkaði og tengjast þær breytur oft ytra umhverfi, til að mynda jafnrétti, fæðingarorlofstöku og samfélagslega fyrirfram ákveðnum kynhlutverkum. Konur hafa þurft að kljást við hindranir í atvinnulífinu, það er ljóst og það er því að mínu viti samfélagslegt verkefni sem allir þurfa að taka þátt í að breyta þessum viðhorfum og jafna leikinn. Við vitum að konur eru hámenntaðar hér á landi og við vitum líka að konur eru jafn hæfar til að ná langt í sínu starfi og karlar. Svo ég svari spurningunni út frá því sem ég tileinka mér þá tel ég að það sem hafi gagnast mér hvað mest bæði í námi og svo þegar ég kom út á vinnumarkaðinn hafi verið metnaður, vinnusemi og jákvæðni fyrir þeim verkefnum sem ég tek að mér.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Ég lít ekki svo á að ég eigi einhverja eina kvenfyrirmynd. Ég reyni fremur að vera vakandi fyrir því ef það er eitthvað í fari fólks sem ég tel vera til fyrirmyndar og í þeim efnum er ég svo heppin að vera umkringd flottum konum og þær hafa allar eitthvað í sínu fari sem hægt er að taka til fyrirmyndar. Annars á ég auðvitað mömmu sem er frábær kvenfyrirmynd, algjör nagli sem hefur aldrei látið neitt stoppa sig ásamt því að koma fjórum börnum til manns. Svo verð ég auðvitað að nefna ömmu mína og nöfnu, Bryndís Víglundsdóttir sem hefur unnið ýmis þrekvirki í gegnum tíðina, bæði hér innanlands og utan, svo sem að koma námi í þroskaþjálfafræði á háskólastig sem henni tókst með þrautlausri vinnu og starfaði svo sem skólastjóri þroskaþjálfaskólans í mörg ár. Fyrir utan það er hún og hefur alltaf verið frábær amma og nú langamma. Tengdamamma mín er sömuleiðis fyrirmynd, einnig dæmi um konu sem er hörkudugleg og lætur mótlæti ekki stoppa sig.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Það er bara misjafnt eftir dögum og hvað liggur fyrir þann daginn.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Morgunrútínan mín hefur aðeins breyst síðastliðna mánuði vegna meðgöngu en nú hentar mér betur að taka æfingu á morgnana en eftir vinnu líkt og ég gerði alltaf áður. Ég reyni því að byrja flesta morgna á því að taka morgunhlaup. Svo þarf að koma yngri syninum í skólann og annað hvort ég eða pabbi hans keyrum hann svo í skólann á leið til vinnu.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Það kemur alveg fyrir að maður sé að vinna heima á kvöldin og einstaka sinnum um helgar en ég reyni að halda því innan skynsamlegra marka.“

Bryndísi finnst gott að fara með eiginmanni sínum út á …
Bryndísi finnst gott að fara með eiginmanni sínum út á land og hlaða batteríin. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gerir þú til að hlaða batteríin?

„Ég tek æfingu, hleyp og stunda lyftingar, það að byrja að hlaupa reglulega hefur verið það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig og er í dag órjúfanlegur partur af minni rútínu. Svo eyði ég tíma með fjölskyldu og vinum. Við hjónin erum bæði í krefjandi starfi og því finnst okkur líka endurnærandi að fara af og til aðeins út fyrir bæinn og gista á hóteli yfir helgi, ég mæli með því!“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara erlendis í góðum félagsskap, fara í leikhús, í göngur, taka góða hlaupaæfingu og eyða tíma með vinum og fjölskyldu. Ég er mjög heimakær og finnst mjög notalegt að slaka á heima um helgar.“

mbl.is