Þetta eru bækurnar sem þú ættir að lesa um páskana

Unsplash/David Lezcano

Páskarnir eru kjörnir til bóklestrar enda fátt eins endurnærandi. Að liggja með hálfétið páskaegg uppi í sófa og njóta þess að fá vel valin orð beint í æð er heimsins besta leið til að verja tíma sínum vel. 

Stúlka, kona, annað

Bernardine Evaristo

Það tók smá tíma að byrja á þessari bók. Fyrsti kaflinn er ekkert sérlega grípandi en um leið og lesandinn kemst inn í bókina er ekki hægt að leggja hana frá sér. Bókin er frábærlega uppsett með mismunandi sögum af konum og örlögum þeirra. Þegar líður á bókina liggur fyrir að sögurnar tengjast og þá verður hún einhvern veginn miklu betri. Þetta er ein af þessum bókum sem auðveldlega væri hægt að lesa tvisvar í röð.

Elsku sólir

Ása Marín

Ef þig dreymir um að fara til Spánar en hefur ekki tök á því að fara þangað núna þá fer þessi bók með þig í ferðalag til Andalúsíu. Hún fer reyndar líka með þig í ferðalag til fortíðar þa r sem gömul áföll koma upp á yfirborðið. Elsku sólir er fjölskyldusaga þar sem samskipti mæðra og dætra koma við sögu.

Konan hans Sverris

Valgerður Ólafsdóttir

Þessi bók er átakanleg og áhugaverð á sama tíma. Hún lýsir heimilisofbeldi á mjög grafískan og nákvæman hátt og hvernig mátturinn fer smám saman úr þolandanum. Bókin er vel skrifuð og vel sett upp og heldur lesandanum allan tímann.

Perlur og steinar: Árin með Jökli

Jóhanna Kristjónsdóttir

Þessi bók er ein af þessum gimsteinum sem hægt er að lesa aftur og aftur. Jóhanna Kristjónsdóttir heitin skrifaði bókina um tímann sem hún varði með skáldinu Jökli Jakobssyni. Þessi bók er listilega skrifuð. Aðstæður fjölskyldunnar eru ekki upp á marga fiska því peningaleysi og alkóhólismi lita tilveruna. Þrátt fyrir dapran veruleika náði Jóhanna að lýsa aðstæðum og segja sögur í bókinni á kómískan hátt. Svo kómískan að auðvelt er að skella upp úr í tíma og ótíma og svo er líka hægt að gráta yfir henni. Það má vel draga þá ályktun að húmor Jóhönnu hafi fleytt henni í gegnum stærstu skaflana en svo getur vel verið að það hafi bara verið ástin. Fólk sem elskar annað fólk af öllu hjarta gengur oft ansi langt til þess að láta hlutina ganga. Sagan lýsir vel stemningunni sem ríkti hér á árum áður og hvað vanþekking á alkóhólisma og fíkn var mikil.

Minn hlátur er sorg: ævisaga Ástu Sigurðardóttur

Friðrika Benónýs

Þessi bók er áhugaverð fyrir margar sakir. Líkt og í bókinni Perlur og steinar er fjallað um alkóhólisma og hvernig hann getur sturtað niður tilveru fólks. Bókin fjallar um skáldkonuna Ástu Sigurðardóttur sem hafði ríkulega hæfileika en fylleríið og ruglið setti strik í reikninginn. Um þessar mundir er verið að sýnda stykkið Sögu Ástu í Þjóðleikhúsinu og því ekki úr vegi að lesa bókina og fara svo í leikhúsið – eða öfugt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »